Fólk sækir í dýrari vöru nú um jólin

Margir hafa þegar hafist handa við jólainnkaupin. Mörg fyrirtæki bjarga …
Margir hafa þegar hafist handa við jólainnkaupin. Mörg fyrirtæki bjarga afkomunni með jólaversluninni. mbl.is/​Hari

Næstu tvær helgar eru einhverjar mestu verslunarhelgar ársins. Það er prýðilegt hljóð í verslunarmönnum fyrir hátíðirnar en ófá íslensk fyrirtæki reiða sig mjög á desember, sem er lykilmánuður í verslun.

Kaupmáttur fólks hefur aukist meira á síðustu þremur árum en nokkru sinni áður á lýðveldistímanum. Það skilar sér í aukinni verslun. „Fólk gerir betur við sig núna og það sækir í dýrari vöru,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, í samtali við mbl.is.

Hann segir aðstæður góðar í íslenskri verslun fyrir jólin en þó gerbreyttar á vissan hátt. Breytingar hafa orðið á neysluháttum fólks á allra síðustu árum og hluti jólaverslunarinnar hefur dreifst yfir á hina nýju alþjóðlegu verslunardaga í nóvember, eins og svarta föstudaginn.

Breytingin felst ekki síður í stóraukinni netverslun, fyrirbæri, sem að vísu hefur ekki rutt sér til rúms hérlendis í eins miklum mæli og víða erlendis. Íslendingar gera þó innkaup í æ stærri stíl á netinu, án þess að þurfa að stíga fæti út um dyrnar.

Andrés segir í þessu samhengi vera áhyggjuefni hversu stór hluti netverslunarinnar er við erlend fyrirtæki. „Það er hlutfallslega meiri aukning í netverslun við fyrirtæki í öðrum löndum en íslensk,“ segir hann. Hann áréttar að áríðandi sé að samkeppnisskilyrði séu gerð hin sömu fyrir innlenda og erlenda netverslun, því annars muni fólk áfram beina viðskiptum sínum út fyrir landsteinana.

Varar við öfgum í neyslu

Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna brýnir fyrir fólki að staldra við í jólainnkaupunum og hugsa hvað skiptir í raun og veru máli. „Þar þurfa hlutir ekki endilega að vera fyrst á listanum,“ segir hann í samtali við mbl.is, „heldur kannski frekar samvera við vini og fjölskyldu.“

„Við viljum fyrst og fremst minna fólk á, að vera ekki að kaupa einhverja hluti sem eru fluttir yfir hálfan hnöttinn bara til þess að enda svo úti í geymslu við hliðina á fótanuddtækinu,“ segir Breki, sem varar við öfgum í neyslu yfir hátíðirnar.

Þá finnst honum vert að minna fólk á skilaréttinn, sem á að gilda um flestar vörur með skilamiða. Athyglisvert í því samhengi, segir hann, er að neytenda- og skilaréttur er ríkari þegar hlutir eru keyptir á netinu en þegar þeir eru keyptir úti í búð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert