Skorar á þingmenn að gefa jólabónusinn

Inga Sæland tók út jólabónusinn sinn.
Inga Sæland tók út jólabónusinn sinn. Skjáskot/Alþingi

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, skoraði á þingheim í dag að gefa jólabónus sinn til góðgerðarmála og veifaði peningum í ræðustól Alþingis. 

Hún sagðist hafa rætt við konu sem vinnur hjá góðgerðarsamtökum í morgun. Sú sagði Ingu að 120 einstaklingar hefðu komið til hennar í gær til að fá kort í Bónus. Konan sagði Ingu að það væri sárara en tárum taki að fylgjast með því hve eymdin hefur vaxið ótrúlega mikið á árinu.

„Við fengum 181 þúsund krónur í jólabónus. Ég veit hvað ég ætla að gefa í jólagjöf. Ég skal sýna ykkur það,“ sagði Inga og dró upp peningaseðla.

„Ég tók út jólabónusinn minn. Ég skora á alla hér að gera slíkt hið sama því við höfum efni á því að kaupa gjafakort fyrir fátækt fólk, rétta það til góðgerðarsamtaka og ganga á undan með góðu fordæmi. Gleðileg jól.“

mbl.is