7 tilnefnd til Íslensku þýðingaverðlaunanna

Sjö eru tilnefndir til Íslensku þýðingaverðlaunanna þetta árið.
Sjö eru tilnefndir til Íslensku þýðingaverðlaunanna þetta árið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sex þýðingar og sjö þýðendur eru tilnefndar til Íslensku þýðingaverðlaunanna þetta árið. Verðlaunin, sem eru veitt fyrir vandaða þýðingu á fagurbókmenntaverki, hafa verið veitt árlega frá 2005 en til þeirra var stofnað til að vekja athygli á ómetanlegu framlagi þýðenda til íslenskra bókmennta. Dómnefnd skipuðu Steinþór Steingrímsson, Brynja Cortes Andrésardóttir og Hildur Hákonardóttir. Afhending þýðingarverðlaunanna er fyrirhuguð í febrúar á komandi ári.

Tilnefningar að þessu sinni hljóta:

Elísa Björg Þorsteinsdóttir fyrir þýðingu sína á Etýður í snjó eftir Yoko Tawada sem Angústúra gefur út og segir í umsögn dómnefndar að Elísu takist með næmni og lipurð að færa margbreytilega menningar- og tungumálaheima verksins yfir á íslensku.

Ingibjörg Eyþórsdóttir fyrir Hin órólegu eftir Linn Ullmann sem Bjartur gefur út og segir í umsögn dómnefndar að Ingibjörgu takast af lipurð að fylgja höfundinum „í leit að uppruna sínum og eltingarleik við að skapa heild sem aldrei verður að raunveruleika.“

Gunnar Þorri Pétursson og Ingibjörg Haraldsdóttir fyrir Hinir smánuðu og svívirtu eftir Fjodor Dostojevskí sem Forlagið gefur út og segir dómnefndin þau ná að opna 19. aldar Rússland upp á gátt fyrir íslenskum lesendum.

Uggi Jónsson fyrir Sæluvíma eftir Lily King sem Angústúra gefur út, en Uggi er sagður ná á „yfirvegaðan og sannfærandi máta“ að fella íslensku að heimi sem er flestum Íslendingum sé fjarlægur.

Einar Thoroddsen fyrir Víti eftir Dante sem Forlagið dreifir. Segir í umsögn dómnefndar að áralöng glíma Einars við ítalska rímformið, tersínuháttinn, sem hann setur sér að vinna eftir, vera virðingarverða og reyna verulega á þanþol tungumálsins. „Þótt þýðandinn beri ætíð virðingu fyrir upprunaverkinu verður þýðingin á köflum gáskafull og fjörug með óvæntum og oft grínaktugum tilvísunum í íslenskan sagnaarf og þjóðsögur.“

Hjalti Rögnvaldsson fyrir Þetta er Alla eftir Jon Fosse sem Dimma gefur út og segir dómnefndin þýðingu Hjalta virka áreynslulausa og vera á látlausu máli sem falli vel að efni og inntaki sögunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert