Engar reglur um jólaberserki í sérbýli

Framkvæmdastjóri húseigendafélagsins segir ljósvíkinga ganga af göflunum við skreytingar á …
Framkvæmdastjóri húseigendafélagsins segir ljósvíkinga ganga af göflunum við skreytingar á húsum sínum í aðdraganda jóla. Thinkstock/Getty Images

„Fyrr má nú skreyta en ofskreyta. Það má eiginlega segja að menn gangi hreinlega af göflunum þegar verst lætur,“ segir Sigurður H. Guðjónsson, framkvæmdastjóri Húseigendafélagsins, sem telur að bráðsmitandi jólaskreytingaæði breiðist út og magnist með hverju árinu.

Sigurður segir helstu fórnarlömb æðisins vera miðaldra húseigendur með skreytingaæði og nágrannar þeirra. Í sérbýlum þurfi eigendur að gæta þess að blikkandi ljós og jólasveinar sem skríkja undan mömmukossum, gólandi Stúfur í reykháfi eða fígúrur sem geifla sig og hreyfa með spastískum hætti trufli ekki daglegt líf og svefn nágranna.

Í fjölbýlum þurfi hófsemdarmenn og ofskreytingamenn að tala sig niður á lausnir og hvort sem íbúum líkar lausnin eða ekki þurfa þeir samt sem áður að taka þátt í kostnaði, sé hann í sæmilegu hófi. Bann við skreytingum í fjölbýlishúsum þekkist en Sigurður efast um að slíkt bann geti staðist skoðun.

Í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag segir Sigurður náungakærleik, umburðarlyndi og tillitssemi vera grundarvallargildi í sambúð manna. Blikkandi ljós og öflug hljóðkerfi, sem lýsa upp svefnherbergi nágranna, eru líkleg til að hafa áhrif á líðan viðkomandi til hins verra á aðventu og jólum.

Michelin-maður í diskóljósum

,,Það er hvorki rómantískt né uppörvandi að reyna að standa sína plikt inni í svefnherberginu undir diskóljósum, hávaða og gauli. Og þurfa að stíga fram í afhjúpandi og afskræmandi diskóljósi sem magnar alla keppi, fellingar og hrukkur þannig að maður líkist helst Michelin-manninum með húð eins og gamall appelsínubörkur,“ segir Sigurður og bætir við að fólk hafi brotnað eða bugast af minna tilefni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert