Enginn sérstakur forgangur fyrir Árneshrepp

Frá snjómokstri í Árneshreppi. Helsti farartálminn er Veiðileysuháls þar sem …
Frá snjómokstri í Árneshreppi. Helsti farartálminn er Veiðileysuháls þar sem snjóalög eru mikil. Í margar vikur yfir veturinn mokar Vegagerðin ekki veginn. mynd/Jón G. Guðjónsson

Þingmenn Norðvesturkjördæmis hafa brugðist við áskorunum oddvita Árneshrepps um úrbætur í samgöngumálum með því að taka undir sjónarmið hreppsins og halda þeim á lofti, m.a. í starfi samgöngu- og fjárlaganefndar. Hins vegar er nefndarstarf niðurstaða málamiðlana og „þetta er bara niðurstaðan. Við höfum í sjálfu sér ekkert við það að bæta og við verðum líka að kannast við það þegar við komumst ekki lengra“.

Þetta segir Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis, um vegabætur í Árneshreppi eins og þær birtast í tillögu að samgönguáætlun. Hann hefur m.a. lagt til við fjárlaganefnd að hreppsnefndin fái fjármagn til að stýra snjómokstri um hreppinn sjálf. Sú hugmynd hafi hins vegar mætt andstöðu þar sem slíkt fyrirkomulag þyki fordæmisgefandi. „En við höfum sum sé velt því upp í samtali við samgönguyfirvöld hvort að hægt væri að mæta þeirra sjónarmiðum með það.“

Þingmennirnir binda nú vonir við það að öllum framkvæmdum verði hægt að flýta verði ný fjármögnunarleið vegagerðar, veggjöld, samþykkt á nýju ári. Það myndi einnig hafa áhrif á fyrirhugaðar vegaframkvæmdir í Árneshreppi. Það mun hins vegar ekki skýrast fyrr en á nýju ári.

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti í Árneshreppi, sagði í viðtali á mbl.is um helgina að hún hefði ítrekað sent bréf til ráðamanna, m.a. allra þingmanna kjördæmisins, þar sem hún vekur athygli á alvarlegum brotalömum í samgöngumálum og fer fram á vegabætur og aukinn snjómokstur. Í síðasta bréfi sínu til þingmannanna gætti örvæntingar, enda hefur fólksfækkunin haldið áfram. Þá var skólanum lokað í haust og sömuleiðis versluninni. Segir oddvitinn raunverulega hættu á að byggðin í Árneshreppi fari í eyði áður en framkvæmdir við nýjan veg yfir Veiðileysuháls, einn mesta farartálmann að vetrarlagi í hreppnum, hefjist. Úrbóta á hálsinum hefur verið krafist í áratugi en þeim hefur ítrekað verið slegið á frest.

Að auki mokar Vegagerðin veginn um hreppinn aðeins einu sinni í viku fram að áramótum. Eftir það er hann ekkert mokaður til 20. mars ár hvert.

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis.
Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis.

„Við erum áfram um að það verði farið sem fyrst í Veiðileysuháls,“ segir Haraldur, spurður um viðbrögð þingmannahópsins við bréfi oddvitans. Hann segist hins vegar líta þannig á að ekki hafi verið komist lengra með málefni Árneshrepps í samgönguáætlun.

Á því tímabili þegar ekkert er rutt um Árneshrepp er flogið tvisvar í viku til Gjögurs. Haraldur bendir á að flugvöllurinn hafi verið endurbættur mikið nýverið. Án þess hefði flugið þangað lagst af.

Eva segir hins vegar flugið ekki raunverulegan valkost fyrir alla og leggur áherslu á nauðsyn nýs vegar um Veiðileysuháls.

Haraldur segir að þær framkvæmdir séu í sömu stöðu og allar aðrar brýnar vegaframkvæmdir. „Á meðan við höfum ekki aðra nálgun í samgöngumálum þá verður biðin löng.“

Hann segir lykilinn að því að áfram verði komist í samgöngumálum breytta nálgun við fjármögnun framkvæmda „og um það stendur kannski stóra deila þingsins í dag,“ segir hann og vísar þar til umræðna um veggjöld.

Finnbogastaðaskóli í Árneshreppi er ekki starfræktur í vetur. Eitt barn …
Finnbogastaðaskóli í Árneshreppi er ekki starfræktur í vetur. Eitt barn á grunnskólaaldri er eftir í sveitarfélaginu og þarf það að sækja sér menntun að Drangsnesi. mbl.is/Golli

Íslendingar séu á hraðferð við að breyta orkugjöfum í samgöngum, „og tekjukerfi vegamála er að hrynja. Þannig að það verður að búa til nýtt tekjumódel, [veggjöld] eru liður í því“.

En á meðan gæti Árneshreppur farið í eyði. Hvernig hljómar það í þínum eyrum?

„Við höfum horft upp á byggðina í Árneshreppi dragast saman. Ég segi að staða sauðfjárræktar sé miklu stærra mál fyrir hreppinn. Það er miklu meiri áhrifavaldur á byggð í Árneshreppi. Ég er ekki að gera lítið úr samgöngumálunum, en þetta er stóra breytan.“

Hvernig hafið þið þingmennirnir brugðist við því?

„Í aðgerðum ríkisstjórnar fyrir ári síðan þar sem brugðist var við vanda sauðfjárræktar þá var sérstaklega horft til svæða eins og Árneshrepps til að fá hærri stuðning úr þeirri aðgerð. Það hefur líka verið leitast við að hafa áherslur í sauðfjársamningi með þeim hætti að þessar byggðir njóti meiri framlaga en aðrar. Allt þetta hefur ekki dugað til því ungt fólk sem var að hasla sér völl við búskap [í Árneshreppi] hvarf frá vegna aðstöðuleysis. Þetta er hin nöturlega staðreynd.“

Flogið er á Gjögur tvisvar í viku yfir vetrartímann. Á …
Flogið er á Gjögur tvisvar í viku yfir vetrartímann. Á nokkurra mánaða tímabili er enginn snjómokstur í hreppnum. mbl.is/Árni Sæberg

En hvað finnst þér um það að þetta gæti raunverulega gerst á næstu árum, að þetta sveitarfélag fari í eyði?

„Mér finnst það ekki gott, mér finnst það nöturleg tilhugsun því að við þurfum á þessari byggð að halda. En hún býr við þessa einangrun og við þennan einhæfa atvinnuveg sem sauðfjárræktin er.“

Í dag er sauðfjárbúskapur aðeins stundaður á fjórum bæjum í hreppnum.

Spurður hvað þingmenn kjördæmisins hafi gert upp á síðkastið til að styðja við atvinnuuppbygginguna í Árneshreppi, t.d. ferðaþjónustuna sem ekki sé hægt að stunda allt árið vegna lélegra samgangna, nefnir Haraldur að fyrir nokkru hafi verið ráðist í miklar fjarskiptabætur í sveitarfélaginu. Þær hafi verið hugsaðar til bóta fyrir ferðaþjónustuna. Einnig hafi verið unnið að því að bæta afhendingaröryggi rafmagns. „En svo er það samgönguþátturinn í þessu ljósi sem við erum búin að ræða. Það er bara veruleikinn að við höfum ekki fengið neinn sérstakan forgang fyrir Árneshrepp í samgöngumálum.“

Hefur Árneshreppur ekki einfaldlega orðið út undan hjá ykkur þingmönnunum?

„Nei, við heyrum þetta víða í kjördæminu,“ segir Haraldur. Samgöngumál eru þar víðast í brennidepli. Fleiri svæði í kjördæminu séu að heyja sömu baráttu og Árneshreppur.

Í tillögu að samgönguáætlun til næstu fimm ára sem kynnt var í haust kom fram að stefnt væri að því að hefja framkvæmdir við nýjan veg um Veiðileysuháls árið 2022. Of seint, að mati íbúa Árneshrepps. „Ákvörðun um frekari frestun þessara framkvæmda er ákvörðun um að leggja svæðið í eyði,“ segir m.a. í umsögn Fjórðungssambands Vestfjarða við tillögunni.

Samgönguáætlunin, sem og umsagnir við hana, hefur frá því að hún var kynnt verið rædd í samgöngunefnd. Haraldur segist ekki geta svarað því á þessari stundu hvort hún muni að lokum færa íbúum Árneshrepps góðar fréttir. Enn eigi eftir að afgreiða málið og hefur því nú verið frestað fram yfir áramót. Og sú afgreiðsla mun hanga saman við sátt um hin umtöluðu veggjöld.

Ferðaþjónustu er ekki hægt að halda úti allt árið í …
Ferðaþjónustu er ekki hægt að halda úti allt árið í Árneshreppi. Þangað hafa þó ferðamenn margt að sækja. mbl.is/Golli

„Meginhugmyndafræðin á bak við þessa nýju fjármögnunarleið í vegagerð er að það sem átti að bíða í fimm ár komist fyrr í framkvæmd. Það færist öll áætlunin fram,“ segir Haraldur.

Honum hefur löngum fundist full ástæða til þess að fara í sértækar aðgerðir fyrir Árneshrepp og bendir á að nú sé sveitarfélagið komið inn í verkefni Byggðastofnunar, Brothættar byggðir.

„Síðan standa þau á þröskuldi þess að framkvæmdir við Hvalárvirkjun fari af stað,“ segir hann. „Það hefur þurft átak frá þingmannahópnum við að halda því máli á sporinu. Ég veit að við þurfum að taka slag með Árneshreppi um það verkefni áfram.“

Spurður hvort þeim fyrirhuguðu framkvæmdum fylgi loforð um að farið verði fyrr í vegabætur segir Haraldur það ekki vera. Því hafi hins vegar verið haldið „rækilega á lofti“ í samgönguáætlunargerðinni að vegabætur séu ákveðin forsenda fyrir virkjunarframkvæmdunum. Hann bendir hins vegar á að enn eigi eftir að ganga frá skipulagsmálum og gefa út framkvæmdaleyfi fyrir virkjuninni.

Haraldur tekur skýrt fram að þingmennirnir hafi áhyggjur af framtíð byggðarinnar í Árneshreppi. Það grundvallist ekki síst af atvinnulífinu og stöðu sauðfjárræktarinnar.

„Það er mjög há brekka fyrir ungt fólk að ákveða að setjast að í þessu sveitarfélagi og takast á við lífið þaðan,“ segir Haraldur. „Þar eru hlutir eins og barnaskóli og slíkt sem kemur til. Ég lærði það fljótt í fyrra starfi mínu [sem formaður Bændasamtakanna] að það var ekki verðið á dilkakjötinu sem sneri öllu á hvolf, heldur hvernig vegirnir væru, barnaskólinn og aðgengið að heilsugæslu. Það er stóri úrslitavaldurinn. En við færum ekki staðsetningu Árneshrepps til.“

mbl.is

Bloggað um fréttina