Flokksskírteini í stað hæfni stjórnenda

Þorsteinn Víglundsson var málshefjandi.
Þorsteinn Víglundsson var málshefjandi. mbl.is/Eggert

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði í sérstakri umræðu á Alþingi um Íslandspóst að flestum hefði verið komið í opna skjöldu um hversu alvarleg staða fyrirtækisins væri orðin, sem sé sérstaklega alvarlegt vegna þess að það er í eigu ríkisins.

Fjárlaganefnd Alþingis afgreiddi breytingartillögu meirihluta nefndarinnar á fundi sínum í síðustu viku um að ríkissjóður fái heimild til að veita Íslandspósti einn og hálfan milljarð króna til að mæta fjárhagsvanda fyrirtækisins.

Þorsteinn benti á að stöðugildum hjá Íslandspósti hafi fjölgað um liðlega 100 frá árinu 2014 á sama tíma og verulega hafi hallað undan rekstrinum. Hann sagði stjórnvöld ekki hafa tekið á undirliggjandi vanda fyrirtækisins. „Raunar er þetta enn eitt dæmið um hversu óæskilegt er að ríkisfyrirtækjum sé stýrt af pólitískt skipuðum stjórnum. Það er allt of sjaldan að einhver hæfisskilyrði, hæfni stjórnarmanna ráða för við skipan slíkra stjórna, heldur skiptir þar flokksskírteinið oftar en ekki öllu máli.“

Íslandspóstur hefur átt við rekstrarvanda að stríða.
Íslandspóstur hefur átt við rekstrarvanda að stríða. mbl.is/Eggert

Óvissa um framtíðina

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði megintilgang frumvarpsins vera að tryggja alþjónustu Íslandspósts. Að tryggja öllum lágmarksþjónustu á viðráðanlegu verði. Þorsteinn spurði hann út í mat á áhrifum frumvarps um póstþjónustu og sagði Sigurður Ingi það flókið vegna óvissu um framtíðina. Bréfum fækki hratt og þörf sé á að frumvarpið feli í sér verulegan sveigjanleika. Rafræn þjónusta sé að taka við af hefðbundnum bréfapósti.

Óttast flengingu frá EFTA

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist hafa miklar áhyggjur af „andvaraleysi ríkisstjórnarinnar sem á að passa fjármuni okkar“. Einnig kvaðst hún hafa áhyggjur af því að sömu stjórnendum sé falið að halda áfram um stýrið þrátt fyrir erfiða stöðu fyrirtækisins.

Helga Vala bætti við að árum saman hafi verið kvartað undan rekstri Íslandspósts á dótturfélögum þess sem eru í samkeppnisrekstri . „Ég óttast að eftirlitsstofnun EFTA munu koma og hreinlega flengja okkur fyrir þessa framkvæmd vegna þess að Íslandspóstur hefur árum saman verið í bullandi samkeppnisrekstri.“

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hefði viljað óháða úttekt

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, sagði ámælisvert hversu seint málið var kynnt í fjárlaganefnd og það veki upp spurningar. Hann telur að fjárlaganefnd hefði þurft að greina rekstur Íslandspósts áður en ákveðið var að veita lánið. „Óháð úttekt á taprekstrinum hefði átt að fara fram og það hefði líka átt að skoða ábyrgð stjórnenda fyrirtækisins.“

Björn Leví Gunnarsson sagði fyrirséð að Íslandspóstur nái ekki að endurgreiða lánið. Verið sé að endurlána 1.500 milljónir króna sem geti ekki verið annað en ríkisstyrkur.

Willum Þór Þórsson.
Willum Þór Þórsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðhaldsaðgerðir máttu hefjast fyrr

Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar, talaði um svar sem nefndin fékk frá Íslandspósti um fyrirhugaðar aðgerðir vegna rekstrarvandans. Þar er talað um að tekjur af einkarétti hafi í minnkandi mæli staðið undir alþjónustu og að stjórn Íslandspósts sé að vinna að gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2019. Í henni felist hagræðingar og aðhaldsaðgerðir. „Ég tek undir að þær hefðu mátt hefjast fyrr,“ sagði hann en bætti við að lánsheimildin sé skilyrt því að ráðherrar upplýsi um framvindu rekstrarhagræðingarinnar. Þá fáist nánari greining á því áður en lánið er veitt.

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

Hefði viljað selja Íslandspóst

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, steig í pontu og sagði „ömurlegt að þurfa að afgreiða þetta neyðarlán“. Sagðist hún hafa samþykkt það vegna skilyrðanna sem fylgdu. „Ég heyrði heldur engan í salnum koma með betri hugmynd um þetta.“ Hún sagðist hafa viljað sjá að „við seldum fyrirtækið Íslandspóst og byðum út þá þjónustu sem við teljum að sé þess eðlis að það þurfi að greiða eitthvert ríkisfé með“.

„Ég get engan veginn séð rök fyrir því að reksturinn þurfi endilega að vera á herðum ríkisins til lengri tíma litið.“

Alþingi.
Alþingi. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert