Pólitískum aðstoðarmönnum mun fjölga

Birgir Ármannsson (t.v.) er flutningsmaður frumvarpsins en meðflutningsmenn eru formenn …
Birgir Ármannsson (t.v.) er flutningsmaður frumvarpsins en meðflutningsmenn eru formenn allra þingflokka á þingi. mbl.is/Hari

Þingflokksformenn allra flokka á Alþingi lögðu fram frumvarp í gær sem felur í sér breytingar á lögum um pólitískt ráðna starfsmenn þingflokka. Ef það er samþykkt mun þingflokkum gert kleift að ráða starfsmenn til aðstoðar þingmönnum sínum.

Frumvarpið felur í sér að 17 aðstoðarmenn verði ráðnir til flokkanna á þingi á næstu þremur árum. Um er að ræða pólitískt skipaða starfsmenn fyrir þingflokkana, sem Alþingi greiðir laun. Í fjárlögum fyrir 2019 er þannig gert ráð fyrir 120 milljóna króna aukningu í fjárheimildum Alþingis til þess að auka aðstoð við þingmenn.

Þegar hafa ráðherrar flestir tvo aðstoðarmenn á sínum snærum og eru aðstoðarmenn ríkisstjórnarinnar samtals 24. Hver þingflokkur á þingi hefur þegar einn starfsmann í sinni þjónustu.

Einn þriðji aðstoðarmanns á hvern óbreyttan þingmann

„Allir sem að þessu koma eru meðvitaðir um þann kostnað sem þessu fylgir og þess vegna erum við að stíga varfærin skref í þessum efnum,“ segir Birgir Ármannsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við mbl.is. Hann er flutningsmaður frumvarpsins.

Hann hafði þó ekki nákvæmar tölur á takteinum um hver kostnaðurinn við þennan starfskraft yrði fyrir ríkissjóð. „Þetta eru einhverjir tugir milljóna á ári,“ sagði hann.

Með varfærnum skrefum á Birgir við að þetta verði gert í áföngum. Árið 2019 má gera ráð fyrir að allir átta þingflokkar fái einn starfsmann ráðinn til þjónustu við sig. Árin 2020 og 2021 fá þingflokkarnir svo starfsmenn í sína þjónustu í hlutfalli við það fylgi sem þeir hlutu í síðustu kosningum.

Miðað er að því að á endanum verði ⅓ stöðugildi aðstoðarmanns á hvern óbreyttan þingmann en þeir eru 47. Stöður aðstoðarmanna sem þessara eru ekki auglýstar heldur mun skrifstofa Alþingis ráða þá, eftir tillögum stjórnmálaflokkanna.

Pólitískir almennir starfsmenn

Í verkahring þessara nýju starfsmanna, sem frumvarpið veigrar sér við að kalla aðstoðarmenn, verða öll hefðbundin verk aðstoðarmanna stjórnmálamanna. „Meginverkefni þessara starfsmanna er aðstoð við þingmenn við undirbúning þingmála, gagnaöflun og aðstoð þegar menn eru að sinna nefndarstörfum,“ segir Birgir.

„Þetta eru störf sem í eðli sínu kalla á pólitíska vinnu og þá gilda ekki sömu reglur um þessa starfsmenn og hlutlausa starfsmenn skrifstofunnar,“ segir Birgir. Þingflokkunum verður gefin heimild til þess að ráða starfsmenn, sem þeir ráða svo hvaða hlutverki eiga nákvæmlega að gegna.

Þingmannsstarfið er breytt

Í Danmörku eru 2,23 aðstoðarmenn á hvern þingmann og í Svíþjóð 1,00 stöðugildi. Helgi Bernódusson skrifstofustjóri Alþingis segir breytingar þær sem frumvarpið boðar þannig eðlilega þróun í átt að því sem tíðkast í öðrum lýðræðisríkjum. Hann kveðst þó ekki í stöðu til þess að taka afstöðu til þess hvort frumvarpið verði beinlínis til hagsbóta fyrir störf þingsins.

Helgi segir þó að störf þingmanna séu vissulega breytt frá því sem áður var. „Þingmannsstarfið er ekki lengur þannig að þingmaður geti komið hérna og unnið öll sín störf sjálfur og skrifað allar tillögur sjálfur. Það hefur einfaldlega breyst, að eðli og í framkvæmd,“ segir Helgi. Þetta frumvarp sé þá liður í aðlögun þingsins að nýjum veruleika.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert