Siðareglurnar nái varla yfir mál Ágústs

Jón Steindór mun ekki beita sér fyrir því að mál …
Jón Steindór mun ekki beita sér fyrir því að mál Ágústs Ólafs fari fyrir siðanefnd. mbl.is/Eggert

„Þessi mál eru að mörgu leyti ólík þó að bæði séu alvarleg. Ég held að siðareglur þingsins nái varla yfir hans mál,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, aðspurður hvort hann telji mál Ágústs Ólafs Ágústssonar þess eðlis að siðanefnd Alþingis ætti að taka það fyrir.

Jón Steindór var einn þeirra þingmanna sem óskuðu eftir því við forsætisnefnd Alþingis að mál þingmannanna sex, sem komu saman á Klaustri bar 20. nóvember og fóru þar ófögrum orðum um samstarfsfólk, aðallega konur, fatlaða og hinsegin fólk, að mál sexmenninganna yrði tekið fyrir að siðanefndinni.

Hann segir þó að telji einhverjir rétt að vísa málinu til siðanefndar, muni siðanefnd sjálf taka afstöðu til þess hvort málið eigi heima hjá nefndinni.

Sjálfur kveðst hann ekki munu beita sér fyrir því og tekur í sama streng og samflokksmaður hans, Þorsteinn Víglundsson, sem í viðtali við Morgunblaðið í gær sagði að siðareglur Alþingis miðist við háttsemi þingmanns sem tengist starfi hans.

„Mér finnst að bæði hann og þingmenn úr Klausturmálinu verði fyrst og fremst að eiga það við sína samvisku hvort þeir séu að gera sjálfum sér gott, og hvað þá öðrum, með áframhaldandi þingsetu. Þetta þurfa menn að vega og meta og það eru þeir einir sem geta gert það,“ segir Jón Steindór aðspurður hvort honum þyki Ágústi Ólafi sætt á þingi í ljósi málavaxta.

Mbl.is hefur náð í nokkra aðra þingmenn sem voru á lista yfir þá sem óskuðu eftir því að forsætisnefnd tæki málið fyrir. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, vildi ekki tjá sig um málið og þær Helga Vala Helgadóttir og Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmenn Samfylkingarinnar, vísuðu á Loga Einarsson, formann flokksins, sem hefur sagt að málið hafi verið afgreitt af faglegri siðanefnd innan flokksins.

Málið horfi ekki öðruvísi við henni

Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, sagði í samtali við mbl.is fljótlega eftir að Ágúst Ólafur gaf út yfirlýsingu um málið. Hún sagðist vona að hann hafi fengið samþykki þolandans fyrir yfirlýsingunni.

Heiða Björg Hilmisdóttir.
Heiða Björg Hilmisdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Þegar þolandinn, Bára Huld Beck, steig fram kom í ljós að svo var ekki. Þar sagði hún málsatvikalýsingu Ágústs Ólafs ekki í samræmi við upplifun hennar af atvikinu og að það hafi aldrei vakað fyrir henni að gera málið opinbert. Sú ákvörðun hafi hins vegar verið tekin úr hennar höndum.

„Ég hef í rauninni engu við þetta að bæta,“ sagði Heiða Björk þegar mbl.is náði af henni tali í dag. Hún sagði málið ekki horfa öðruvísi við sér þrátt fyrir að komið hefði í ljós að hann hafi ekki fengið samþykki þolanda. Hún standi við það sem hún sagði.

„Mér finnst alltaf, ef gerandi ætlar að fara fram, að hann eigi að gera það í samráði við þolanda, alveg óháð því hver það er.“

mbl.is

Bloggað um fréttina