„Þessi hópur á verðskuldað sólskin“

Þau Halldór og Guðrún á blaðamannafundinum í dag.
Þau Halldór og Guðrún á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fram kom í máli Guðrúnar Ögmundsdóttur, tengiliðs vistheimila, og Halldórs Þormars Halldórssonar, umsjónarmanns sanngirnisbóta hjá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, á blaðamannfundi í dómsmálaráðuneytinu að þau hafi mætt verkefninu að auðmýkt og virðingu fyrir fólkinu sem sótti um bæturnar. „Kannski settum við mennskuna í fyrsta sæti.“

Í lokaskýrslu sem var kynnt í dag kemur fram að greiddar hafa verið sann­girn­is­bæt­ur til hátt í 1.200 ein­stak­linga og nema bóta­greiðslur um þrem­ur millj­örðum króna. Bæturnar voru greiddar fyr­ir mis­gjörðir á stofn­un­um eða heim­il­um fyr­ir börn.

Guðrún og Halldór nefndu að engu máli hafi skipt hvaða ríkisstjórnir voru við völd á þeim átta árum sem tók að vinna verkefnið. Allar hafi þær sýnt mikinn velvilja gagnvart verkefninu og aldrei hafi skort á fjármuni. „Það er gott að lofa sólargeislanum að koma aðeins á þetta fólk sem átti þessi djúpu skref. Okkar virðing er ómæld fyrir þessum hópi og við teljum niðurstöðuna mjög farsæla,“ sagði Guðrún.

Hefði átt að koma upp miklu fyrr

Halldór benti á að Breiðavíkurmálið árið 2007 hafi hrundið umræðu um bótagreiðslur af stað og nefndi þátt DV í því samhengi. Hann sagði að aldrei allir verði sáttir varðandi niðurstöðu málsins en því miður sé ekkert hægt að gera við því á grundvelli umræddrar skýrslu. „Þetta mál hefði átt að koma upp miklu fyrr,“ sagði Halldór og nefndi viðtöl árið 1969 við ungar konur sem höfðu verið vistaðar á Bjargi. Bækur hafi verið skrifaðar, þar á meðal bók um ævi Sævars Ciesielski. „Samfélagið var ekki tilbúið að hlusta.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann sagði sanngirnisbæturnar vera dæmi um að fjölmiðlar geti breytt samfélaginu til góðs. „Ég tel að þetta hafi breytt samfélaginu á ýmsa vegu, ekki alltaf til góðs samt.“ Einnig nefndi hann að verkefnið hafi verið erfitt því ekki var vitað hversu margir myndu gefa sig fram en talið er að um 5.000 einstaklingar hafi dvalið á stofnununum og heimilunum.

Mikill harmur að baki

Guðrún sagði mikinn harm á bak við verkefnið og því hafi verið mikilvægt að fjalla um málin af virðingu við fólkið. Hún sagði verkefnið stórt uppgjör í ofbeldi gegn börnum og að það hafi verið undanfara fyrir margri annarri opnun um ofbeldi. „Við sjáum hvað þetta hefur haft gríðarleg áhrif.“

Hún bætti við: „Við teljum að við séum að skilja góðu verki en áréttum að það eru alltaf einhverjir sem detta á milli skips og bryggju. En þessi hópur á verðskuldað sólskin.“

mbl.is