Vika er langur tími í pólitík

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/​Hari

Vika er liðin frá því að Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, birti á Facebook-síðu sinni yfirlýsingu þar sem hann greindi frá því að hann hefði áreitt konu kynferðislega síðasta sumar og í kjölfarið fengið áminningu frá trúnaðarnefnd flokksins í lok nóvember. Skömmu síðar steig konan fram og sagði Ágúst hafa reynt að fegra málið.

Fram kom í yfirlýsingu Ágústs að hann hefði hitt konuna á veitingahúsi í miðbæ Reykjavíkur í júní og eftir samræður þar hafi þau farið á vinnustað konunnar og haldið þar spjallinu áfram. Sagðist hann hafa nálgast konuna tvívegis og spurt hvort þau ættu að kyssast. Hún hafi hafnað því með skýrri neitun og hann brugðist við með særandi orðum um hana.

Konan hafi að sögn Ágústs því næst beðið hann að yfirgefa vinnustað hennar sem hann hafi gert. Konan hafi nokkru seinna haft samband við hann og greint frá upplifun sinni og hann beðið hana afsökunar en hún ákveðið að leita til trúnaðarnefndarinnar. Sagðist Ágúst hafa ákveðið að leita sér aðstoðar og fara í tveggja mánaða ólaunað leyfi frá þingstörfum.

Formaður Samfylkingarinnar, Logi Már Einarsson, sagði í kjölfar yfirlýsingar Ágústs við mbl.is að hann virti ákvörðunina um að greina frá málinu og hvernig hann hygðist bregðast við því. Logi vildi hins vegar ekki svara því með beinum hætti hvort hann teldi að Ágúst ætti að segja af sér þingmennsku eða hvort málið ætti heima hjá forsætisnefnd Alþingis.

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Sigurður Bogi

Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, sagðist í samtali við mbl.is að hún vonaði að Ágúst hefði fengið samþykki konunnar áður en hann birti yfirlýsingu sína. Sagðist hún gera ráð fyrir því. Það væri á hans ábyrgð. Líkt og Logi vildi hún ekki svara því hvort hún teldi að Ágúst ætti að segja af sér eða hvort málið ætti erindi við forsætisnefnd þingsins.

Fjallað var um það á mbl.is síðasta laugardag að Ágúst hefði verið í upphaflegum hópi þingmanna sem sent hefði rafrænt erindi til forsætisnefndar Alþingis um mánaðarmótin þar sem farið var fram á að nefndin tæki fyrir Klaustursmálið svokallað. Þegar erindið var síðan sent inn formlega á pappírsformi hefði nafn hans hins vegar verið horfið af listanum.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna og einn þeirra þingmanna sem vísuðu Klaustursmálinu til forsætisnefndar, upplýsti í kjölfarið að Ágúst hefði í millitíðinni óskað eftir því að nafn hans yrði fjarlægt af málinu af ótilgreindum persónulegum ástæðum. Ágúst óskaði eftir því um viku áður en yfirlýsing hans birtist eftir að hann hafði verið áminntur.

Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi varaformaður og þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í útvarpsþættinum Þingvellir á K100 síðasta sunnudag að hún teldi að máli Ágústs ætti að vera lokið með afgreiðslu trúnaðarnefndar flokksins. Taldi hún eðlismun á málinu og Klaustursmálinu þar sem mál Ágústs væri aðeins atvik á milli tveggja einstaklinga.

Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar.
Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Golli

Konan sem Ágúst áreitti, Bára Huld Beck, steig fram á þriðjudaginn og greindi frá sinni hlið á málinu í pistli á fréttavefnum Kjarnanum hvar hún starfar sem blaðamaður, en áreiti Ágústs átti sér stað í húsnæði fjölmiðilsins. Sagðist hún hafa verið tilneydd að stíga fram þar sem Ágúst hefði ákveðið að gera málið opinbert og gera mun minna úr því en tilefni væri til.

Greindi Bára frá því að Ágúst hefði margítrekað reynt að kyssa hana þrátt fyrir að hún neitaði honum um það. Bára sagði ennfremur að í hvert sinn sem hún hefði neitað honum hefði hann niðurlægt hana með ýmsum hætti. Meðal annars með tali um vitsmuni hennar og útlit. Þetta hafi ekki verið misheppnuð viðreynslu heldur ítrekuð áreitni og niðurlæging.

Þá hafi Ágúst ekki yfirgefið vinnustað Báru þegar hún bað hann um það, líkt og hann hélt fram í yfirlýsingu sinni, heldur hefði hún á endanum þurft að fylgja honum ákveðin út með þeim orðum að hún treysti sér ekki til þess að vera í sama rými og hann. Hann hafi ekki látið segjast og haldið áfram þvingandi áreitni sinni í hennar garð í lyftunni á leiðinni út.

Bára greindi einnig frá því að hún hefði ákveðið að hafa samband við Loga Má þar sem Ágúst virtist ekki ætla að taka á málinu á neinn hátt, en fyrst í stað hafi gengið erfiðlega að ná í Ágúst vegna þess. Hún hafi greint Loga frá málavöxtum og hann bent henni á trúnaðarnefndina sem hún hafi í kjölfarið haft samband við 19. september. 

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eftir að frásögn Báru lá fyrir hafði mbl.is samband við Loga Má sem tók undir það að munur væri á frásögnum þeirra. Aðspurður vildi Logi ekki tjá sig um yfirlýsingu Ágústs og muninn á henni og frásögn Báru að öðru leyti en því að Ágúst bæri ábyrgð á yfirlýsingu sinni. Spurður hvort Ágúst gæti snúið aftur á þing vildi Logi heldur ekki tjá sig um það.

Frásögn Báru varð til þess að Ágúst tjáði sig um málið aftur á Facebook en þá hafði ekki náðst í hann í síma þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Sagði hann að ætlunin hefði ekki verið að rengja Báru, en munurinn á frásögn þeirra skýrðist af ólíkri upplifun. Í frásögn Báru sagði hún Ágúst ekki hafa gert neinar athugasemdir við lýsingu hennar fyrir trúnaðarnefndinni.

Heiða Björg var spurð af mbl.is í gær hvort afstaða hennar til máls Ágústs hefði breyst eftir að Bára birti frásögn sína, sem væri afar ólík lýsingu Ágústs, og svaraði hún því til að það breytti ekki fyrri ummælum hennar um málið. Heiða sagði um síðustu helgi að hún vonaði að yfirlýsing Ágústs hefði verið birt með samþykki Báru sem reyndist ekki vera raunin.

Formaður trúnaðarnefndar Samfylkingarinnar, Guðrún Ögmundsdóttir borgarfulltrúi flokksins og fyrrverandi þingmaður hans, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að hún vilji ekki tjá sig um mál Ágústs. „Nei, við tjáum okkur ekkert. En ef svo væri þá kemur það bara í ljós síðar.“ Guðrún hafði áður sagt að gögn nefndarinnar væru ekki gerð opinber.

mbl.is

Bloggað um fréttina