Róa áfram inn í nóttina

Gestir og gangandi voru duglegir að hvetja slökkviliðs- og sjúkra­flutn­inga­mennina …
Gestir og gangandi voru duglegir að hvetja slökkviliðs- og sjúkra­flutn­inga­mennina áfram. Haraldur Jónasson/Hari

Slökkviliðs- og sjúkraflutningamennirnir sjö sem hófu síðdegis í gær vikulangan róður í verslun Under Armour í Kringlunni til styrktar Frú Ragnheiði láta engan bilbug á sér finna og voru á fleygiferð þegar ljósmyndara mbl.is bar að garði fyrr í kvöld. Söfnunin gengur vonum framar miðað við fyrstu væntingar.

Upphaflegt markmið var að safna nægilega miklu fjármagni til að aðstoða Frú Ragnheiði, sem er verkefni Rauða krossins í Reykjavík og hef­ur það mark­mið að ná til jaðar­settra hópa í sam­fé­lag­inu eins og heim­il­is­lausra ein­stak­linga og þeirra sem nota vímu­efni í æð.

„Ég veit að þau vant­ar ákveðið tæki sem ekki er gert ráð fyr­ir í rekstri verk­efn­is­ins í ár og því ákváðum við að safna fyr­ir því,“ sagði Ágúst Guðmundsson, einn slökkviliðsmannanna í samtali við mbl.is í gær.

Gestir Kringlunnar eru hvattir til að taka þátt í róðrinum.
Gestir Kringlunnar eru hvattir til að taka þátt í róðrinum. Haraldur Jónasson/Hari

Tækið sem um ræðir er eins kon­ar vasa­ljós sem auðveld­ar að lýsa upp illa farn­ar æðar. Tækið mun nýt­ast vel í bíl Frú Ragn­heiðar sem ekið er um göt­ur höfuðborg­ar­svæðis­ins, sex kvöld í viku. Þangað geta ein­stak­ling­ar leitað og fengið heil­brigðisaðstoð sem og nála­skiptiþjón­ustu. Mark­miðið með nála­skiptiþjón­ustu er að draga úr lík­um á sýk­ing­um og smiti svo sem lifr­ar­bólgu C og HIV meðal þeirra sem sprauta vímu­efn­um í æð.

Tækið kostar um hálfa milljón og sagði Ágúst að það væri gaman að ná að safna þeirri fjárhæð en hann setti sér þá háleitari markmið. „Ef við náum að safna milljón verð ég voða glaður,“ sagði hann.

Miðað við þau markmið og fyrstu tölur sem bárust fyrir hádegi í dag gengur söfnunin vonum framar enda hafði í morgun vel á fjórða hundrað þúsund safnast á tæpum sólarhringi.

Annar dagur af sjö gekk vel.
Annar dagur af sjö gekk vel. Haraldur Jónasson/Hari

Þegar mbl.is sló á þráðinn til Ágústar í morgun var hann að hefja róður í þriðja skiptið. Hann sagði að það hefði verið nokkuð einmanalegt á róðrarvélinni í nótt og var miklu spenntari fyrir deginum þegar gestir og gangandi geta litið við og hvatt slökkviliðs- og sjúkra­flutn­inga­menn­ina áfram.

Róður­inn fer þannig fram að hver rær klukku­tíma í senn á sjö klukku­stunda fresti. Dag­skrá­in er því ansi þétt. „Við erum öll í ansi fínu standi af því að við þurf­um að stand­ast okk­ar ár­legu þrek­próf inn­an vinn­unn­ar og vön vakta­vinn­unni þannig að það hjálp­ar ör­ugg­lega líka. Við hvetj­um fólk til að koma og róa með okk­ur, hvort sem það er mín­úta eða klukku­tími,“ útskýrði Ágúst í samtali við mbl.is fyrir helgi.

Hægt er að leggja söfnunnni lið á vef Rauða krossins.

Það voru ekki allir gestir Kringlunnar sem vissu hvað væri …
Það voru ekki allir gestir Kringlunnar sem vissu hvað væri að ske þegar þeir sáu róður í fullum gangi í búðarglugga. Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert