Skipstjórinn laus úr haldi

Frá höfninni á Flateyri. Mynd úr safni.
Frá höfninni á Flateyri. Mynd úr safni. mbl.is/Brynjar Gauti

Lögreglan á Vestfjörðum hefur sleppt úr haldi skipstjóra sem var handtekinn í gærkvöldi grunaður um að hafa stjórnað fiskibáti undir áhrifum fíkniefna auk gruns um brot á lögum um lögskráningu sjómanna.

Í gærkvöldi var greint frá því að björgunarsveitir hefðu verið kallaðar út vegna báts sem virtist hafa dottið út af ferilvöktun. Í framhaldinu kom í ljós að um lögreglumál var að ræða.

Lögreglan á Vestfjörðum greinir frá því, að hún hefði fengið upplýsingar í gærkvöldi um að skipstjóri á fiskibát væri mögulega undir áhrifum fíkniefna við stjórn bátsins. Báturinn var þá að nálgast Flateyri að loknum veiðum.

Lögreglumenn fóru á Flateyri í því skyni að athuga áreiðanleika upplýsinganna.

Lögreglubifreið lögreglunnar á Vestfjörðum.
Lögreglubifreið lögreglunnar á Vestfjörðum. Ljósmynd/Lögreglan

„Þegar báturinn var að leggjast að bryggju og skipstjórinn varð var við lögreglumennina, snéri hann frá, sigldi úr höfn og áleiðis út Önundarfjörð. Slökkti hann um leið öll siglingaljós og fljótlega á sjálfvirkum tilkynningarskyldubúnaði. Því gat Vaktstöð siglinga m.a. ekki séð staðsetningu bátsins.

Í framhaldinu voru björgunarsveitir kallaðar út til leitar að bátnum, auk þyrlu og varðskips Landhelgisgæslunnar.

Þess utan fóru lögreglumenn á nálægar hafnir,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni.

Þá segir, að um tveimur klukkustundum eftir að báturinn hafði farið frá Flateyri kom hann til hafnar á Suðureyri. Þá var skipstjóri bátsins handtekinn og færður á lögreglustöðina á Ísafirði vegna rannsóknar málsins. Hann var grunaður um stjórn skips undir áhrifum fíkniefna auk gruns um brot á lögum um lögskráningu sjómanna.

Honum hefur nú verið sleppt en rannsókn málsins heldur áfram að sögn lögreglu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert