„Allt að því vitlaust veður“ á morgun

Vindaspá Veðurstofu Íslands fyrir morgundaginn klukkan sex lítur svona út. …
Vindaspá Veðurstofu Íslands fyrir morgundaginn klukkan sex lítur svona út. Gul viðvörun er í gildi fyrir Suðurland. Kort/Veðurstofa Íslands

„Það hvessir jafnt og þétt eftir því sem líður á morgundaginn. Eftir kl. 17:00 – 18:00 þá verður þetta orðið helvíti slæmt undir Eyjafjöllunum og allra syðst á landinu en þetta gengur nokkuð hratt yfir þannig að um kl. 22:00 annað kvöld er strax farið að draga stórlega úr þessu allra syðst,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Gul viðvörun er í gildi fyrir Suðurland kl. 16:00 – 22:00 á morgun.

„Gengur í austan 18-23 m/s. jafnvel staðbundið 25-28 m/s undir Eyjafjöllum, í Landeyjum og Fljótshlíð með vindhviður að 45 m/s. Ökumenn fari varlega á þessum slóðum,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.

Óli Þór segir að það verði hvasst á öllu landinu á morgun en ekkert í líkingu við það sem verður undir Eyjafjöllum og í Mýrdal þar sem „er viðbúið að það verði allt að því vitlaust veður“.

„Þar má reikna með að maður sjái vindhraða í meðalvindi sem gæti farið í 25-28 m/s og hviður sem gætu slegið í 45-50 m/s ef það hittir þannig á. Annars er þetta meira 15-23 m/s á völdum stöðum, t.d. á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli en Snæfellsnesið er öllu jafna ekki mjög leiðinlegt í þessu,“ segir Óli Þór.

Þá verður að sögn Óla Þórs oft mjög hvasst á Barðaströnd og á Vestfjörðum en svo dettur vindurinn að mestu leyti niður aðfaranótt þriðjudags.

Úrkoma mest á Austurlandi

„Það er úrkoma sem fylgir þessu en hún er mest frá Mýrdal og Austurlandi. Annars staðar verður miklu minni úrkoma en það dregur að sama skapi mjög mikið úr henni aðfaranótt þriðjudags. Það er einna helst að úrkoman verði viðloðandi Austfirðina og við norðausturströndina,“ segir Óli Þór einnig.

Rigning verður einnig mikil frá Öræfum og vestur á firði.

Hlýtt loft fylgir hvassviðrinu

„Það kólnar ofurlítið í nótt og eftir því sem bætir í vind á morgun þá hlýnar jafnt og þétt á landinu. Annað kvöld myndi ég halda að það væri býsna víða um 4-10 gráður. Þetta er vel hlýtt sem kemur með þessu,“ segir Óli Þór en bætir við að um leið og vindinn lægi muni kólna að nýju.

„Dagurinn er svo stuttur að sólin hefur lítil tækifæri til að hita eitthvað, hún er bæði lágt á lofti og birtutími er stuttur,“ bætir hann við.

Þá er viðbúið að hálka myndist þar sem götur eru blautar næsta sólarhringinn en þar sem þurrt er verði varla nægilega kalt til að það myndist hálka fyrir utan staðbundna bletti.

Varasamt fyrir ferðamenn og vegfarendur á Suðurlandi

Óli Þór tekur fram að fólk þurfi að hafa almennan en ekki sérstakan viðbúnað á morgun vegna hvassviðris. Vindurinn á morgun verður svipaður og landsmenn hafi kynnst undanfarið nema allra syðst á landinu.

„Það er einna helst að vegfarendur sem þurfa að fara frá Suðurlandi yfir á Suðausturland sem þurfa að gæta sín seinni partinn og fram eftir kvöldi á morgun. Að öðru leyti er það þessi almenni viðbúnaður en það er hvasst og það munu myndast strengir við fjöll á hefðbundnum stöðum fyrir austanáttina,“ útskýrir Óli Þór og bætir við að það séu aðallega ferðamenn sem þurfi að gæta sín þar sem margir séu ekki vanir svona veðri.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert