Ekki áður í svo stórum verkefnum

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Hari

Reykjavíkurborg og íslenska ríkið eru formlega búin að sækja um að fá að halda 33. verðlaunahátíð evrópsku kvikmyndaverðlaunanna árið 2020. Þetta staðfestir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.

Greint var frá því í  vikunni í Morgunblaðinu að borgin og ríkið hefðu samþykkt heimild til að sækja um hátíðina. Sendinefnd á vegum Íslands var á hátíðinni í Sevilla á Spáni, þar sem hátíðin fór fram núna í vikunni, og kynnti sér framkvæmd og ræddi við evrópsku nefndina.

Ekki áður verkefni af þessari gráðu

Reykjavík mun keppa við tvær aðrar borgir, en Dagur segir að ekki sé gefið upp hvaða borgir þær séu og í raun viti þau hjá Reykjavík það ekki með vissu hverjir keppi þar gegn þeim. Hann segir að þau hafi lagt fram skjöl frá Reykjavíkurborg og ríkinu með formlegri umsókn auk þess að hitta nefndarmenn og farið yfir með þeim hvað Reykjavík hefði upp á að bjóða sem borg til að standa að verðlaunaafhendingunni.

Segir Dagur að það væri áhugavert fyrir verðlaunin að vera afhent í Reykjavík, en ekki síður spennandi fyrir Reykjavík að vera vettvangur fyrir svona viðburði. „Við höfum ekki áður verið í svona verkefnum,“ segir Dagur og vísar til stærðar hátíðarinnar og bætir við að mikið umstang fylgi svona verkefni. Reykjavík uppfylli þó allar grunnkröfur sem gerðar séu og þar leiki Harpa stórt hlutverk, en gert er ráð fyrir að hún hýsi verðlaunaafhendinguna. Hann segir að með þessu geti Reykjavík sýnt hvað borgin hafi fram að færa þegar komi að stórum viðburðum.

Telur möguleika Reykjavíkur góða

Dagur segir að kvikmyndaverðlaun sem þessi séu í rauninni kvikmyndavika sem endi svo á tveimur verðlaunaafhendingum. Einni á föstudegi sem sé aðeins minni í sniðum og svo aðalverðlaunaafhendingunni á laugardegi.

Verðlaunaafhendingin færi fram í Hörpu verði Reykjavík fyrir valinu.
Verðlaunaafhendingin færi fram í Hörpu verði Reykjavík fyrir valinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður út í möguleika Reykjavíkur að hljóta náð fyrir augum valnefndarinnar segir Dagur að hann telji möguleikana góða. Segir hann að sendinefndinni hafi verið vel tekið og þá hafi Íslendingar verið nokkuð áberandi á verðlaunaafhendingunni. Þannig hafi Halldóra Geirharðsdóttir verið tilnefnd fyrir kvikmyndina Kona fer í stríð og Sverrir Guðnason, sem búið hefur lengi í Svíþjóð, hafi verið tilnefndur fyrir hlutverk sitt í myndinni um tennisspilarann Björn Borg. Þá nefnir Dagur að kvikmyndagerð sé í blóma hér á landi og vill hann meina að kvikmyndavorið sé í raun orðið sumar. Auk þess sé aðstaða fyrir kvikmyndagerð að batna og vísar hann þar til uppbyggingar kvikmyndavers og kvikmyndaþorps í Gufunesi.

Opnar á fleiri viðlíka viðburði

Dagur segir að ef Reykjavík verði valin og vel gangi sé þarna möguleiki til að koma að fleiri svona viðburðum á komandi árum. „Þarna erum við vonandi að sanna að við getum tekið að okkur svona viðburði og vonandi myndu aðrir slíkir fylgja í kjölfarið,“ segir hann og bætir við að þetta sé fyrsti og stærsti svona stórviðburður sem haldinn sé hér á landi. 

Borgarstjórinn segist sjá fyrir sér að verkefnið þróist þannig að það verði kvikmyndavika sem borgarbúar og aðrir tækju þátt í og myndu finna fyrir að alþjóðlegur viðburður væri í gangi. Þannig væri hægt að hitta kvikmyndastjörnur og fleira sem þekkist af hátíðum sem þessum.

Kostnaður allt að 270 milljónir

Samkvæmt samþykkt borgarráðs er heimild fyrir allt að 135 milljóna útgjöldum borgarinnar vegna verkefnisins og mun ríkið ábyrgjast sömu upphæð til verksins. Segir Dagur að helstu kostnaðarliðir séu flug og hótel fyrir gesti, útsendingakostnaður og svo leigan á Hörpu. Hann tekur fram að í þessari kostnaðaráætlun sé miðað við ýtrustu mörk. „Við teljum ekki þurfa svona mikið,“ segir hann, en í greinargerð borgarráðs er meðal talað um að finna styrktaraðila.

Auk Reykjavíkurborgar og menntamálaráðuneytisins eru það Íslandsstofa, Meet in Reykjavík og RÚV sem standa fyrir umsókn borgarinnar og 5-6 einstaklingar á þeirra vegum í sendinefndinni sem fór til  Sevilla.

Skýrast mun á fyrri hluta næsta árs hvort Reykjavík verði valin til að halda verðlaunaafhendinguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert