Mátti gera fjárnám vegna skuldar eftir skattbrot

Heimilt var að gera fjárnámið.
Heimilt var að gera fjárnámið. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í vikunni beiðni karlmanns um að ógilda fjárnám sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafði gert. Fjárnámið var gert vegna skuldar mannsins við sýslumann í kjölfar dóms sem hann hlaut árið 2013 í skattamáli. Hafði hann verið dæmdur til að greiða 64 milljónir vegna vangoldins virðisaukaskatts.

Áður hafði maðurinn hlotið dóm árið 2008 vegna samskonar brota varðandi skil á virðisaukaskatti, en það var vegna uppgjörsáranna 2006-7, meðan seinni dómurinn náði til uppgjörsársins 2008. Taldi maðurinn að um samfellt brot hafi verið að ræða og að taka hefði átt málin fyrir í einu dómsmáli. Sagði hann að með þessu hefði honum í raun verið gerð refsing tvisvar fyrir sama brotið og slíkt gangi gegn meginreglum sakamálaréttarfars.

Vegna þessa taldi maðurinn að verið væri að halda honum í gjaldþroti í lengri tíma, enda væri ljós að hann hefði ekki bolmagn til að greiða fjárhæð fjárnámsins.

Dómurinn hafnaði þessari kröfu mannsins og vísaði til þess að dómur í málinu hafi fallið árið 2013 og engum vörnum sem maðurinn vísar til núna hafi verið haldið fram við meðferð málsins á sínum tíma. Hafi málinu ekki heldur verið áfrýjað né óskað eftir endurupptöku. Segir í dómsorði að það sé því með öllu haldlaust fyrir manninn að halda uppi þessum málflutningi nú, fimm og hálfu ári eftir að hann var dæmdur gegn skýlausri játningu fyrir stórfellt skattabrot.

 Segir jafnframt að maðurinn hafi ekki byggt málið að neinu leiti á því að aðfararheimildin hafi verið einhverjum annmörkum háð eða ekki til staðar sem leiði til þess að fella beri gerðina úr gildi. Er kröfu hans um að ógilda fjárnámið því hafnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert