Snjóleysi hefur áhrif á sölu jólatrjáa

Frá jólamarkaði Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk.
Frá jólamarkaði Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk. mbl.is/Hari

Sala á jólatrjám gengur nokkuð vel þrátt fyrir að landsmenn séu margir hverjir ekki enn komnir í jólaskap sökum snjóleysis og almennra leiðinda þegar kemur að veðri. Normannsþinur og íslensk fura í stærðinni 1,5 – 2 metrar eru vinsælustu tegundirnar hjá Íslendingum samkvæmt óvísindalegri könnun mbl.is.

Sumir viðmælendur sem mbl.is náði tali af töldu að snjór hefði þau áhrif á fólk að það kæmi fyrr að kaupa jólatré en þegar snjólaust er líkt og núna en aðrir sáu ekki greinilegan mun þar á eða á milli ára. Flestir voru þó sammála um að salan í ár væri með góðu móti og væri að aukast jafnt og þétt eftir því sem aðfangadagur færist nær.

Gott að versla innandyra

„Salan hefur gengið heldur betur en í fyrra og þá er sérstaklega mikil aukning í sölu á íslenskum trjám. Við erum svolitlir sérfræðingar í að redda blágreni, rauðgreni og furu og við höfum meira að segja verið að flytja furu alla leið frá Hallormsstaðaskógi,“ segir Hjalti Björnsson, formaður Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík, í samtali við mbl.is.

Slæmt veður hefur ekki haft áhrif á söluna hjá Flugbjörgunarsveitinni að mati Hjalta. „Við erum inni og fólki finnst voða gott að koma inn til okkar. Við erum með alveg 150 tré hangandi inni þannig að það blæs ekki og rignir ekki á fólk meðan það skoðar tré,“ segir hann og bætir við:

„Við erum mjög sátt og erum þakklát okkar viðskiptavinum. Þetta er gríðarlega mikilvæg fjáröflun og skiptir okkur miklu meira máli en aðra smásöluaðila.“

Normannsþinur og íslensk fura vinsælustu tegundirnar

Vinsælustu trén segir Hjalti vera normannsþin og íslenska furu í stærðinni 1,5 – 2 metra. Undir það tekur Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur sem selur tré í Almannadal og á jólamarkaði í Heiðmörk.

„Það er mest selt af furu í hæðarflokknum 1,5 – 2 metrar. Fura, rauðgreni og sitkagreni eru aðaltegundirnar og við erum eingöngu með íslensk tré, þá ýmist frá okkur sjálfum úr Heiðmörk en einnig frá öðrum skógræktarfélögum og nokkrum skógarbændum,“ segir Helgi í samtali við mbl.is.

„Miðað við mína reynslu þá kaupir fólk jólatré snemma í desember þegar það er snjór og það er meiri jólastemning. En ef mánuðurinn er hlýr eins og núna þá bíður fólk nú fram undir þessa helgi til að kaupa sér tré,“ bætir Helgi við.

Spurður hvað sé mikilvægasta atriðið þegar kemur að því að velja tré stendur ekki á svörum hjá Helga: „Að fjölskyldan sé sátt við valið.“

Forseti Íslands velur danskt tré

„Við finnum engan mun á milli ára tengt veðrinu í sölunni. Þetta er svipað og hefur verið síðustu ár. Við pöntum yfirleitt svipað magn og náum að selja allt sem við höfum pantað,“ segir Bryndís Ósk Björnsdóttir hjá Björgunarsveitinni í Hafnarfirði í samtali við mbl.is. Þar er einungis seldur danskur normannsþinur.

Salan hefur farið mjög vel af stað hjá þeim í Hafnarfirði þar sem danskur normannsþinur er seldur. „Forsetinn er búinn að koma og kaupa af okkur,“ bætir Bryndís við.

Íslensk stafafura er vinsælli í ár en í fyrra.
Íslensk stafafura er vinsælli í ár en í fyrra. Ljósmynd/Wikipedia.org
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert