Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn stúlku

Ákæran var gefin út af embætti héraðssaksóknara.
Ákæran var gefin út af embætti héraðssaksóknara. mbl.is/Ófeigur

Embætti héraðssaksóknara hefur ákært karlmann fyrir kynferðis- og barnaverndarlagabrot gagnvart stúlku sem nú er 17 ára, en meint brot áttu sér stað þegar stúlkan á aldrinum 13 til 15 ára gömul. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í síðustu viku, en í ákæru málsins segir að hann hafi meðal annars strokið henni innanklæða og haft við hana kynferðislegt tal.

Maðurinn er ákærður fyrir þrjú atvik. Hið fyrsta varðar að hann hafi strokið maga stúlkunnar innanklæða og niður undir buxnastreng þar sem þau lágu í sófa. Var þetta þegar stúlkan var 13 ára. Næsta atvik var þegar stúlkan var 14 ára, en þá ræddi hann við hana um kynlíf og kynlífstæki með þeim hætti að það særði blygðunarsemi stúlkunnar, eins og fram kemur í ákærunni.

Í þriðja og síðasta atvikinu er hann ákærður fyrir að hafa áreitt hana kynferðislega með því að leggjast upp í rúm til hennar, strjúka henni um hárið og lærið og viðhaft kynferðislegt tal við hana um sjálfsfróun.

Saksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og þá er farið fram á að manninum verði gert að greiða stúlkunni 1,5 milljónir í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert