Bíða skýrslu tæknideildar lögreglu

Eignatjón vegna eldsvoðans var gríðarlega mikið.
Eignatjón vegna eldsvoðans var gríðarlega mikið. mbl.is/​Hari

Rannsókn á upptökum eldsvoðans sem kom upp í iðnaðarhúsnæði við Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði í nóvember stendur enn yfir á meðan beðið er eftir skýrslu tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er víst að hún muni skila óyggjandi niðurstöðum um orsakir eldsins.

„Rannsókninni miðar fínt. Þetta snýst um að klára skýrslur og ég er að bíða eftir skýrslu tæknideildar sem mér var sagt að eigi að berast fljótlega. Það er ekki endilega víst að menn nái að segja það með óyggjandi hætti [hver orsökin er],“ segir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Hann segir þó orðið ljóst hvar í húsinu eldurinn byrjaði að loga en nú þurfi að reyna finna út hvers vegna kviknaði í. Þá er lögreglu orðið ljóst hvernig þróun eldsvoðans var eftir að hafa tekið skýrslur af vitnum og fengið sönnunargögn í hendur.

Slökkviliði tókst að slökkva eldinn eftir þriggja daga baráttu.
Slökkviliði tókst að slökkva eldinn eftir þriggja daga baráttu. Haraldur Jónasson/Hari

Skúli segir að ekki enginn sé grunaður um að hafa valdið eldsvoðanum og engin teikn séu á lofti um að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað.

Húsnæðið við Hvaleyrarbraut, sem er á tveimur hæðum, er nánast alveg ónýtt eftir eldsvoðann. „Það er spurn­ing með þessa steyptu veggi, hvort þeir geti haldið sér, en húsið er ann­ars að mestu ónýtt og þetta er mikið eigna­tjón,“ sagði Eyþór Leifsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is á meðan slökkvistarf var enn í gangi um miðjan nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert