Dæmdur til að greiða 238 milljónir

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Ágúst Alfreð Snæbjörnsson var í byrjun mánaðarins dæmdur í tveggja ára fangelsi og til að greiða tæplega 238 milljónir í sektir til ríkisins fyrir skattabrot á árunum 2012-13 í tengslum við rekstur tveggja fyrirtækja. Þá var hann einnig dæmdur fyrir skilasvik með því að hafa látið millifæra 50 milljóna lokauppgjör vegna framkvæmda fyrir Reykjavíkurborg við Norðlingaskóla og Sæmundarskóla inn á annan reikning en hafði verið settur upp sem veð fyrir skuldum litháíska byggingafélagsins Adakris sem Ágúst var í forsvari fyrir.

Í málinu var einnig annar maður sem hafði stýrt öðru félaginu í skamman tíma dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 6,6 milljónir vegna skattabrota.

Samkvæmt dómi héraðsdóms, sem féll 4. desember en var birtur á vef dómstólsins í dag, stóðu mennirnir ekki skil á staðgreiðslu upp á rúmlega 37 milljónir á árunum 2012-13, fyrir félag sem þeir voru í forsvari fyrir, en hlutur Ágústs var tæplega 31 milljón.

Var Ágúst auk þess fundinn sekur um að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti upp á 32 milljónir við rekstur félagsins Adakris á seinni hluta ársins 2011. Er hann auk þess fundinn sekur um að hafa ekki staðið skil á 38 milljóna staðgreiðslu sama félags á árunum 2011 til 2012.

Vísaði á slæman rekstur áður en hann tók við

Í dóminum er vísað til varnar Ágústs sem telur að hann hafi tekið við fyrra félaginu þegar það var fjárhagslega illa statt eftir að hinn maðurinn hafi rekið það illa. Sagði hann hinn manninn hafa gefið rangar upplýsingar um fjárhagsstöðu félagsins. Gat Ágúst hins vegar ekki svarað því af hverju hann hafi ekki farið úr félaginu þegar honum varð staðan ljós.

Sagðist Ágúst meðal annars hafa beint þeim fyrirmælum til fjármálastjóra að greiða aðeins skuldir við ríkið sem væru inn á þeim uppgjörstímabilum eftir að hann tók við stjórnartaumunum. Slíkt hafi þó ekki verið hægt.

Var hann fundinn sekur um að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu og virðisaukaskatti upp á rúmlega 100 milljónir króna fyrir bæði félögin á umræddu tímabili, en opinber gjöld sem ekki voru greidd af fyrri stjórnanda námu 6,6 milljónum.

Skilasvik í tengslum við uppgjör Sæmundarskóla og Norðlingaskóla

Adakris sá meðal annars um framkvæmdir við Sæmundarskóla og Norðlingaskóla. Var Ágúst útibússtjóri félagsins. Var félagið í viðskiptum við MP banka og hafði bankinn tekið veð í reikningnum vegna skulda félagsins. Þegar upp kom ágreiningur milli Reykjavíkurborgar og Adakris árið 2012 vegna vanefna við framkvæmdir við skólana tvo var lokaniðurstaðan sú að Reykjavíkurborg gerði lokauppgjör við Adakris. Fólst í því að greiða lokagreiðslu upp á 50 milljónir á reikning Adakris í Íslandsbanka. Áður hafði MP banki þó sent Reykjavíkurborg yfirlýsingu þess efnis að greiðslur allra útgefinna reikninga skyldu lagðir inn á reikning Adakris í MP banka.

Frá þeim tíma sem Sæmundarskóli var í byggingu, en skilasvikin …
Frá þeim tíma sem Sæmundarskóli var í byggingu, en skilasvikin tengjast lokauppgjörs bæði Sæmundarskóla og Norðlingaskóla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Árið 2014 dæmdi Hæstiréttur Reykjavíkurborg til að greiða MP banka 28 milljónir upp í yfirdrátt félagsins hjá MP banka sem hefði átt að greiðast upp með lokauppgjörinu hefði það farið á réttan stað. Í dómi héraðsdóms nú kemur fram að Ágúst hafi beint fyrirmælum til starfsmanns Reykjavíkur um að greiða upphæðina inn á reikninginn í Íslandsbanka í staðinn fyrir veðsetta reikninginn í MP banka. Taldi Ágúst veðréttindi MP banka ekki ná til lokauppgjörs, en dómurinn hafnaði þeirri vörn hans.

Sem fyrr segir eru bæði Ágúst og hinn maðurinn fundnir sekir um skattabrot. Brot Ágústs eru þó mun umfangsmeiri. Þá er Ágúst fundinn sekur um skilasvikin á 50 milljóna greiðslunni. Er honum gert að greiða verjanda sínum 3,2 milljónir og þarf hinn maðurinn að greiða lögmönnum sínum um 1,6 milljónir í málsvarnarlaun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert