Eigandi Sjanghæ krefur RÚV um milljónir

Veitingastaðurinn Sjanghæ á Akureyri.
Veitingastaðurinn Sjanghæ á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Lögmaður Rositu YuFan Zhang, eiganda Sjanghæ-veitingastaðanna, hefur sent Ríkisútvarpinu formlega kröfugerð, þar sem farið er fram á formlega afsökunarbeiðni og þrjár milljónir króna í miskabætur vegna umfjöllunar fréttastofu RÚV um veitingastaðinn Sjanghæ á Akureyri í fyrra.

Þetta staðfestir Sævar Þór Jónsson lögmaður Rositu í samtali við mbl.is. Hann segir að Rosita hafi nýlega leitað til sín til þess að reka málið áfram. Hann segir kröfugerðina eiga fullan rétt á sér og að RÚV hafi verið veittur frestur til loka vikunnar til þess að bregðast við.

„Þessu verður fylgt fast á eftir,“ segir Sævar Þór, en fyrr á þessu ári lýsti Jóhannes Már Sigurðarson lögmaður því yfir fyrir hönd Rositu að hún hygðist höfða mál á hendur Ríkisútvarpinu vegna fréttaflutnings af starfsmannamálum á veitingastaðnum Sjanghæ á Akureyri í lok ágúst í fyrra. Það fór hins vegar ekki lengra og nú er Rosita komin með annan lögmann, sem hefur sem áður segir sent formlega kröfugerð á RÚV.

Sjanghæ-málið vakti mikla athygli og var fyrirferðarmikið í fjölmiðlum landsins fyrstu dagana í september fyrir rösku ári.

Í fyrstu frétt RÚV af málinu 30. ágúst í fyrra sagði meðal annars að grunur léki á að starfsfólk veitingastaðarins fengi greiddar þrjátíu þúsund krónur á mánuði í laun og borðaði matarafganga á staðnum.

Ábendingar um starfsaðstæður starfsmanna á veitingahúsinu höfðu borist til stéttarfélagsins Einingar-Iðju á Akureyri, sem fór í eftirlitsferð á veitingahúsið þann sama dag. Fulltrúi stéttarfélagsins ræddi svo við fréttamann RÚV í beinni útsendingu af vettvangi í kvöldfréttum.

Rosita YuFan Zhang krefur RÚV um formlega afsökunarbeiðni og þrjár …
Rosita YuFan Zhang krefur RÚV um formlega afsökunarbeiðni og þrjár milljónir króna vegna umfjöllunar um veitingastaðinn Sjanghæ á Akureyri. mbl.is/RAX

Stéttarfélagið komst svo að þeirri niðurstöðu að þær upplýsingar um kjör starfsmanna sem fram kæmu í gögnum sem aflað var við vinnustaðaeftirlitið stæðust almenna kjarasamninga og launataxta sem giltu á veitingahúsum. Grunur um mansal reyndist því ekki á rökum reistum, samkvæmt athugun stéttarfélagsins.

Eining-Iðja sendi svo frá sér yfirlýsingu vegna fjölmiðlaumfjöllunar um málið, þar sem fram kom að fréttastofa RÚV þyrfti ein að axla ábyrgð á því að hafa birt mynd af veitingastaðnum áður en sannað hefði verið að brot hefðu átt sér stað.

„Það að fréttamaður Rík­is­út­varps­ins kaus að flytja frétt af meintu man­sali með því að birta mynd af veit­ingastaðnum, og þar með nafn hans, er að öllu leyti hans ákvörðun og þar með á hans ábyrgð, yf­ir­manna hans og stofn­un­ar­inn­ar í heild sinni,“ sagði í yfirlýsingu stéttarfélagsins.

mbl.is