Kertasníkir vinsælasti jólasveinninn

Kertasníkir er uppáhalds jólasveinn flestra landsmanna.
Kertasníkir er uppáhalds jólasveinn flestra landsmanna. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Kertasníkir er vinsælasti jólasveinninn þriðja árið í röð en þetta kemur fram í könnun MMR um vinsældir íslensku jólasveinanna. Stúfur og Hurðaskellir koma næstir á eftir Kertasníki.

Kertasníkir hlaut 29% tilnefninga en Stúfur kemur næst á eftir með 25% tilnefninga. Einungis einu prósentustigi munaði á milli hans og Kertasníkis í fyrra en vinsældaaukning Stúfs frá því í fyrra gekk að mestu leyti til baka í ár.

Töluvert langt er í þriðja vinsælasta jólasveininn, en það er Hurðaskellir líkt og fyrri ár, með 13% tilnefninga.

Einungis 1% kvenna halda upp á Bjúgnakræki

Kertasníkir reyndist vinsælasti jólasveinninn á meðal kvenna en heil 39% kvenna héldu sérstaklega upp á hann, samanborið við 19% karla.  Stúfur reyndist hlutskarpastur á meðal karla en 22% þeirra nefndu hann sem sinn uppáhalds jólasvein, samanborið við 27% kvenna. Mestan mun á vinsældum eftir kyni svarenda var að finna hjá Bjúgnakræki, sem reyndist uppáhalds jólasveinn 9% karla en einungis 1% kvenna.

Könnunin var framkvæmd dagana 5. til 11. desember 2018 og var heildarfjöldi svarenda 975 einstaklingar, 18 ára og eldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert