Þurftu að finna einhverjar lausnir

Leiðir 5 og 15 eftir lokun Gömlu-Hringbrautar.
Leiðir 5 og 15 eftir lokun Gömlu-Hringbrautar. Ljósmynd/Strætó

„Við höfðum svolitlar áhyggjur af þessu, létum prófa þetta og það gekk vel,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason upplýsingafulltrúi Strætó. Breytingar verða á leiðakerfi Strætó í byrjun næsta árs en tvær leiðir munu keyra þröngar götur miðbæjarins vegna lokunar gömlu Hringbrautar.

Skipt verður í nýtt leiðakerfi Strætó 6. janúar.

Fram kom í tilkynningu frá Strætó í morgun að í janúar mun hluti gömlu Hringbrautar loka í sex ár vegna framkvæmda á nýjum Landspítala. Lokunin mun hafa nokkur áhrif á leiðakerfi Strætó en eins og Guðmundur segir hefur gamla Hringbrautin verið hálfgerð slagæð Strætó. 

„Þar fara vagnar fram hjá Landspítalanum og BSÍ. Það er mikill missir og við þurftum að finna einhverjar lausnir,“ segir Guðmundur. Hann segir að Hringbrautarverkefnið og Nýi-Landspítali hafi verið mjög skipulega gert og að Strætó hafi verið með í ráðum hvernig hægt væri að gera það þannig að sem minnst truflun yrði á kerfinu.

Leiðir 5 og 15 aka nýja leið til að komast frá Gömlu-Hringbraut á Snorrabraut en á leið austur munu leiðirn­ar beygja inn á Baróns­stíg og aka niður Bergþóru­götu og inn á Snorra­braut á leið sinni á Hlemm. Guðmundur segir að þröng beygja frá Barónsstíg inn á Bergþórugötu, til móts við Sundhöllina, hafi verið löguð að strætó.

Leið 15 mun keyra Barónsstíg og Bergþórugötu næstu sex árin.
Leið 15 mun keyra Barónsstíg og Bergþórugötu næstu sex árin. mbl.is/​Hari

„Það er búið að breyta götunum aðeins og búa til meira pláss þannig að það sé auðveldara fyrir strætó að taka beygjurnar,“ segir Guðmundur.

Leiðir 1, 3 og 6 munu keyra fram hjá BSÍ á gömlu Hringbraut og þaðan nýjan veg niður á Hringbraut. Sá vegur verður með aðgangsstýrðum ljósum fyrir strætó. „Það hefur verið talað um forgangsaðgerðir, eins og í tengslum við borgarlínu, og við höfum oft nefnt ljósastýringu. Það verður áhugavert að sjá hvernig það kemur út,“ segir Guðmundur.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert