Vopnað rán í Iceland í Glæsibæ

Vopnað rán var framið í verslun Iceland í Glæsibæ í …
Vopnað rán var framið í verslun Iceland í Glæsibæ í morgun. Mynd úr safni. mbl.is/Hjörtur

Vopnað rán var framið í verslun Iceland í Glæsibæ milli kl. 6:00 og 7:00 í morgun. Maður vopnaður hnífi gekk inn í verslunina og ógnaði starfsmanni með hnífnum en beitti honum ekki heldur sló til afgreiðslumannsins. Þetta staðfestir lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í samtali við mbl.is.

Afgreiðslumaðurinn meiddist sem betur fer ekki alvarlega en var færður á sjúkrahús til aðhlynningar.

Ræninginn tók pening úr afgreiðslukassanum en fjárhæðin er sögð vera minni háttar, líklega milli 10 og 20 þúsund krónur. Maðurinn hefur ekki verið handtekinn og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu veit ekki hver gæti hafa verið þarna að verki. Lögreglan á enn eftir að fá myndir úr öryggismyndavélum verslunarinnar.

Nánari deili á manninum eru ekki þekkt á þessari stundu en heimildir mbl.is herma að hann hafi sagt eitthvað við afgreiðslumanninn á erlendu tungumáli. Ekki er vitað hvort hann var undir áhrifum áfengis eða efna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert