Allt að 6.500 fermetra samgöngumiðstöð

Gert er ráð fyrir allt að 6.500 fermetra sameiginlegri samgöngumiðstöð …
Gert er ráð fyrir allt að 6.500 fermetra sameiginlegri samgöngumiðstöð á reitnum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Óheppilegt væri að halda því opnu hvort húsnæði BSÍ stæði eða viki í samkeppni um deiliskipulag og þróun samgöngumiðstöðvar á svokölluðum Umferðarmiðstöðvarreit. Þetta meðal þess sem fram kemur í skýrslu starfshóps Reykjavíkurborgar og Strætó bs. sem gert var að undirbúa samkeppnina.

Þar segir að niðurstaða starfshópsins sé að kalla eigi eftir afstöðu borgarráðs um það hvort núverandi bygging BSÍ eigi að standa eða víkja. „Ef byggingin á að standa er þó mikilvægt að fram komi að byggja megi við hana og henni geti verið fundið annað hlutverk en samgöngumiðstöð.“

Skýrsla starfshópsins verður til umræðu á borgarstjórnarfundi sem hefst kl. 14 í dag, en lagt er til að samþykkt verði að efna til samkeppni um skipulag Umferðarmiðstöðvarreits „með það að markmiði að þar rísi alhliða samgöngumiðstöð fyrir Reykjavík, höfuðborgarsvæðið og landið allt.“

Flugafgreiðsla og göng undir Hringbraut

Samkvæmt þarfagreiningu og skipulagi starfshópsins er meðal annars gert ráð fyrir þremur stæðum fyrir borgarlínu, þremur stæðum fyrir Strætó, níu til tólf stæðum í samnýtingu fyrir hina ýmsu ferðaþjónustu, 20 til 30 stæðum fyrir afgreiðslustæði bílaleiga, tíu til fimmtán stæðum fyrir leigubíla, fimm til tíu stæðum fyrir deilibíla og 20 fyrir deilihjól.

Gert er ráð fyrir allt að 6.500 fermetra sameiginlegri samgöngumiðstöð fyrir almenningssamgöngu- og rútufarþega, auk flugafgreiðslu, en  skýrslu verkefnishóps samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins frá maí 2018 um nýja flugstöð á Reykjavíkurflugvelli var niðurstaðan að flugafgreiðsla í samgöngumiðstöð á BSÍ reit væri áhugaverðasti kosturinn. Telur starfshópur Reykjavíkurborgar að tengingin yrði með göngum undir Hringbraut.

U-reitur verði ein af meginskiptastöðvum almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, en miðað við að hlutdeild almenningssamgangna aukist í 12% árið 2040 má gera ráð fyrir því að 29.000 farþegar almenningssamgangna fari í gegn um reitinn á sólarhring.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert