„Fer alfarið eftir fæðingardegi barns“

Há­mark greiðslna úr Fæðing­ar­or­lofs­sjóði til for­eldra í fæðing­ar­or­lofi hækk­ar um …
Há­mark greiðslna úr Fæðing­ar­or­lofs­sjóði til for­eldra í fæðing­ar­or­lofi hækk­ar um 80.000 krón­ur á mánuði um ára­mót­in, eða úr 520.000 kr. í 600.000 kr. Hækkunin miðast við fæðingardag barns. Ljósmynd/Pexels

Reglugerð um hækkun á greiðslum til foreldra í fæðingarorlofi frá 1. janúar 2019, sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur undirritað, tekur til foreldra barna sem fæðast á árinu 2019. Eldri fjárhæðir gilda áfram vegna barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í fóstur á tímabilinu 1. janúar 2017 - 31. desember 2018. Þetta kemur fram í frétt á vef Fæðingarorlofssjóðs.

„Þetta fer alfarið eftir fæðingardegi barns,“ segir Leó Örn Þorleifsson, forstöðumaður Fæðingarorlofssjóðs og nefnir sem dæmi ef foreldrar sem sækja um hjá Fæðingarorlofssjóði í dag vegna barns sem fæðist á næsta ári, þá fá foreldrarnir greiðslu sem eiga við árið 2019. Foreldrar sem hafa þegar fengið greiðsluáætlun vegna barna sem fædd eru árið 2018 en áætlunin er í gildi hluta árs 2019 eiga því ekki rétt á endurreiknaðri greiðsluáætlun. 

Samkvæmt reglugerðinni öðlast eftirfarandi breytingar gildi 1. janúar 2019 og eiga við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2019 eða síðar:

  • Hámarksgreiðsla hækkar úr 520.000 kr. í 600.000 kr.
  • Aðrar greiðslur hækka um 3,6% sem hér segir:
  • Lágmarksgreiðsla fyrir 25-49% starf hækkar úr 123.897 kr. í 128.357 kr.
  • Lágmarksgreiðsla fyrir 50-100% starf hækkar úr 171.711 kr. í 177.893 kr.
  • Fæðingarstyrkur til foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi hækkar úr 74.926 kr. í 77.624 kr.
  • Fæðingarstyrkur til foreldra í fullu námi hækkar úr 171.711 kr. í 177.893 kr.
mbl.is