Örlæti og hjartagæska

Heiðbjört Ingvarsdóttir hér í prentsmiðju Landsprents.
Heiðbjört Ingvarsdóttir hér í prentsmiðju Landsprents. mbl.is/Kristinn Magnússon

Liðsmenn Skákfélagsins Hróksins og Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands, voru með fangið fullt þegar þeir fóru í sinn árlega jólagjafaleiðangur til Kulusuk á Grænlandi síðastliðinn laugardag.

Að þessu sinni fengu um sjötíu börn jólagjafir frá Hróknum og Kalak sem þeir Hrafn Jökulsson og Stefán Herbertsson afhentu. Fóru þeir utan með flugvél frá Air Iceland Connect, sem yfir vetrartímann flýgur vikulega til hinnar afskekktu byggðar með helstu nauðsynjar. Í jólapökkunum voru föt, leikföng, gotterí og sitthvað smálegt og gagnlegt.

Gjöf í minningu sonar

Sennilega var þó rúsínan í pylsuendanum gjafirnar sem Heiðbjört Ingvarsdóttir lagði til. Það voru spjaldtölvur sem gefnar voru nemendum í 9. bekk grunnskólans sem þau ljúka í vor. Tölvurnar og börnin voru alls níu, en þetta er í annað sinn sem Heiðbjört gefur börnunum tölvur, sem voru þrjár í fyrra.

Heiðbjört Ingvarsdóttir er starfsmaður Landsprents sem er hluti af starfsemi Árvakurs, sem meðal annars gefur út Morgunblaðið. „Sjálf er ég alveg aflögufær og vildi styrkja eitthvert gott málefni í minningu Valbergs Gunnarssonar sonar míns, sem lést af slysförum árið 1997. Ég hreifst af eldmóði Hrafn Jökulssonar í starfi hans á Grænlandi, gaf mig fram og fékk góðar viðtökur hans. Tölvurnar hafa líka komið sér ákaflega vel fyrir börnin og eru aðgangur þeirra inn í veröld tækninnar. Gjöfin til barnanna breytir ekki heiminum en hún gleður og veitir mér sjálfri góða tilfinningu,“ sagði Heiðbjört.

Sjá umfjöllun um mál þetta í heild á baksíðu Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert