Ráðin stjórnandi Arctic Arts

Ragnheiður Skúladóttir.
Ragnheiður Skúladóttir. Ljósmynd/Aðsend

Ragnheiður Skúladóttir hefur verið ráðin sem stjórnandi Listahátíðarinnar í Norður-Noregi, Arctic Arts Festival. Ragnheiður hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra Íslenska dansflokksins undanfarin ár og verið annar listrænna stjórnenda LÓKAL leiklistarhátíðar í Reykjavík.

Ragnheiður Skúladóttir kom að skipulagningu viðburða á Arctic Arts Festival árin 2016 og 2017 (Arctic Arts Summit). Hún velur leiklistar- og dansviðburði á dagskrá hátíðarinnar 2019, mun taka til starfa í marsmánuði 2019 og vinna við hlið Mariu Utsi, núverandi stjórnanda, þar til hún tekur að fullu við starfi listræns stjórnanda í ágúst 2019, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

„Ég hlakka mjög mikið til þess að hefja vinnu í Harstad, ásamt því frábæra teymi sem heldur þar úti einni af stærstu listahátíðum Norðurlanda. Staðsetning hátíðarinnar finnst mér afar heillandi; ég hef unnið á norðurslóðum og kann vel að meta þá útsjónarsemi og hreinskiptni sem fylgir jafnan lífi og starfi fólks á þessum slóðum. Listahátíðin í Norður-Noregi hefur gengið í gegnum mikilvægar breytingar á liðnum árum – undir stjórn Mariu Utsi – og það er frábært tækifæri að mega taka við af henni og leiða hátíðina inn í spennandi tíma,“ segir Ragnheiður í fréttatilkynningu.

„Arctic Arts Festival er árleg og alþjóðleg sólstöðuhátíð þar sem boðið er upp á hágæða og athyglisverða listviðburði. Markmiðið með hátíðinni er að framleiða og og kynna fyrir almenningi ný verk á sviði tónlistar, leikhúss, myndlistar og dans. Ég mun byggja á þeim styrku tengslum sem Arctic Arts Festsival hefur haft við tónlistarsenuna, bæði í Noregi og á alþjóðavettvangi og auka enn frekar vægi viðburða sem spretta úr jarðvegi sviðslista og myndlistar. Ég hef alltaf haft trú á mikilvægi og mætti listarinnar og hef í því efni alveg sérstakan áhuga á samþættingu listgreinanna. Þetta verður eitt af helstu áhersluatriðunum þegar kemur að því að setja saman dagskrá Arctic Arts Festival og ég er þegar farin að huga að í tengslum við hátíðahöldin 2020. Ég hef einnig áhuga á að kanna frekar hlutverk hátíðarinnar utan hinnar eiginlegu hátíðarviku; hvernig við getum átt frumkvæði að því að þróa líflega umræðu og listsköpun á svæðinu. Markmiðið verður hið sama: að halda áfram að byggja upp listahátíð sem nýtur virðingar innanlands sem utan og tengir íbúa í Norður-Noregi við umheiminn,“ segir Ragnheiður ennfremur í tilkynningu.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert