RÚV á eftir að fara yfir kröfugerðina

Lögmaður Rositu YuFan Zhang, eigandi Sjanghæ-veitingastaðanna, hefur sent RÚV formlega …
Lögmaður Rositu YuFan Zhang, eigandi Sjanghæ-veitingastaðanna, hefur sent RÚV formlega kröfugerð þar sem farið er fram á formlega afsökunarbeiðni og þrjár milljónir króna í miskabætur vegna umfjöllunar frétta­stofu RÚV um veit­ingastaðinn Sj­ang­hæ á Ak­ur­eyri í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við fengum þetta bréf á föstudag og eigum eftir að setjast niður og fara yfir það,“ segir Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri Ríkisútvarpsins, um formlega kröfugerð sem lögmaður Rositu YuFan Zhang, eiganda Sjanghæ-veitingastaðanna, hefur sent RÚV. Í kröfugerðinni er farið fram á formlega afsökunarbeiðni og þrjár milljónir króna í miskabætur vegna umfjöllunar frétta­stofu RÚV um veit­ingastaðinn Sj­ang­hæ á Ak­ur­eyri í fyrra.

Rakel vildi ekki tjá sig að öðru leyti um kröfugerðina þegar leitast var eftir því en hún segir að til standi að fara yfir hana ásamt lögfræðingi og skrifstofustjóra Ríkisútvarpsins.

Sævar Þór Jónsson, lögmaður Rositu, segir í samtali við mbl.is að umbjóðandi hans muni stefna RÚV ef stofnunin gengst ekki við kröfunum sem lagðar eru fram.

Fréttaflutningur um mögulegt mansal á veitingastaðnum Sjanghæ birtist fyrst 30. ágúst í fyrra þar sem sagði meðal annars að grun­ur léki á að starfs­fólk veit­ingastaðar­ins fengi greidd­ar þrjá­tíu þúsund krón­ur á mánuði í laun og borðaði mat­araf­ganga á staðnum.

Ábend­ing­ar um starfsaðstæður starfs­manna á veit­inga­hús­inu höfðu borist til stétt­ar­fé­lags­ins Ein­ing­ar-Iðju á Ak­ur­eyri, sem fór í eft­ir­lits­ferð á veit­inga­húsið þann sama dag. Full­trúi stétt­ar­fé­lags­ins ræddi svo við frétta­mann RÚV í beinni út­send­ingu af vett­vangi í kvöld­frétt­um.

Stétt­ar­fé­lagið komst svo að þeirri niður­stöðu að þær upp­lýs­ing­ar um kjör starfs­manna sem fram kæmu í gögn­um sem aflað var við vinnustaðaeft­ir­litið stæðust al­menna kjara­samn­inga og launataxta sem giltu á veit­inga­hús­um. Grun­ur um man­sal reynd­ist því ekki á rök­um reist­um, sam­kvæmt at­hug­un stétt­ar­fé­lags­ins.

mbl.is