Slydda á aðfangadag

mbl.is/Kristinn Magnússon

Veðurspáin gerir ráð fyrir kólnandi veðri á landinu og frosti um allt land á Þorláksmessu. Á aðfangadag er spáð rigningu eða slyddu. 

„Austanstrekkingur og milt veður í dag. Rigning, einkum austanlands, en úrkomulítið vestan til á landinu fram eftir degi. Hægari vindur og dálítil væta á morgun, en þurrt að kalla á Norður- og Vesturlandi. Á föstudag er útlit fyrir rólega norðaustanátt með skúrum suðaustanlands, en þurru veðri annars staðar. Það fer heldur kólnandi,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Greiðfært er á Suður- og Vesturlandi. Eitthvað er um hálkubletti á fjallvegum á Vestfjörðum. Greiðfært er um Norðurland fyrir utan hálku á fáeinum útvegum, eitthvað er um hálku eða hálkubletti á Austurlandi.

Veðurspá fyrir næstu daga

Austan 8-15 og talsverð rigning A-lands í dag. Úrkomulítið V-til á landinu, en víða rigning í kvöld. Hiti 2 til 9 stig. Austan 8-13 á morgun, en hægari fyrir norðan. Rigning eða skúrir um landið SA-vert, annars þurrt að kalla. Hiti 0 til 7 stig, mildast syðst.

Á miðvikudag:
Austan 3-8 m/s, en 8-13 syðst. Rigning SA-til á landinu, annars þurrt. Hiti 0 til 5 stig, en í kringum frostmark N-lands. 

Á fimmtudag:
Hæg austlæg, skýjað með köflum og vægt frost, en skúrir og hiti 0 til 5 stig á S- og SA-landi. 

Á föstudag og laugardag:
Norðaustanátt og smáskúrir eða él á A-verðu landinu, en þurrt V-til. Hiti 1 til 5 stig við SA- og A-ströndina, annars vægt frost. 

Á sunnudag (Þorláksmessu):
Hæg breytileg átt og bjart veður, frost 0 til 7 stig. 

Á mánudag (aðfangadag jóla):
Útlit fyrir suðvestanátt með rigningu eða slyddu, einkum V-til á landinu. Hlýnandi veður.

mbl.is