Svíður að málið sé ekki klárað

Frá kynningu á lokaskýrslu um sanngirnisbætur í síðustu viku.
Frá kynningu á lokaskýrslu um sanngirnisbætur í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér finnst það dapurlegt ef menn telja sig búna að skoða öll börn vegna þess að það er ekki búið og við vitum það alveg,“ segir Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.

Lokaskýrsla um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum fyrir börn var birt á föstudaginn. Þar kom fram að greiddar hafa verið sanngirnisbætur til hátt í 1.200 einstaklinga og nema bótagreiðslur um þremur milljörðum króna. Í skýrslunni var sagt frá gagnrýni frá Þroskahjálp vegna þess að aðstæður fatlaðra sem hafi dvalið á stofnunum hafi ekki verið kannaðar til hlítar, nema á Kópavogshæli. 

Bryndís Snæbjörnsdóttir ásamt Haraldi Ólafssyni, fyrrverandi vistmanni á Kópavogshæli, og …
Bryndís Snæbjörnsdóttir ásamt Haraldi Ólafssyni, fyrrverandi vistmanni á Kópavogshæli, og Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra í Stjórnarráðinu á síðasta ári. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðspurð segir Bryndís að samtökin séu ósátt við að stjórnvöld hafi ekki farið eftir ábendingum sem komu fram í skýrslu frá árinu 2016 um vistun barna á Kópavogshæli þar sem fram kom: „Þegar gögn um viðhorf til fatlaðs fólks og stöðu málaflokksins eru metin heildstætt verður nefndin að telja að sannfærandi rök standi til þess að gera það með einhverju móti kleift að kanna og taka afstöðu til þess hvort og í hvaða mæli börn á öðrum stofnunum en Kópavogshæli hafi sætt illri meðferð og ofbeldi.“

„Við urðum fyrir vonbrigðum,“ segir Bryndís um lokaskýrsluna, þar sem kom fram að greiðslu sanngirnisbóta vegna vistheimila og stofnana sem vistuðu börn sé lokið. Það sé löggjafans að ákveða hvort almenn lög um sanngirnisbætur verða tekin upp. „Þetta snýst um virðingu gagnvart fötluðu fólki, að við séum öll jöfn og jafnmikils virði sem manneskjur. Maður fær þessa tilfinningu að við séum það ekki með þessari afgreiðslu.“

Lokaskýrslan um sanngirnisbætur.
Lokaskýrslan um sanngirnisbætur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bryndís nefnir Skálatún, Sólheima, Sólborg og Tjaldanes í þessu samhengi. Miðað við skýrsluna frá 2016 sé engin ástæða til að ætla að börnin sem þar dvöldu hafi sætt annars konar meðferð en börnin á Kópavogshæli. Hún segist binda vonir við að ráðherrar og ráðamenn semji ný lög um sanngirnisbætur sem muni taka tillit til þessara barna. „Ábendingin kom í skýrslunni og stjórnvöld hefðu átt að bregðast við því þá.“

„Við trúðum því í einfeldni okkar að það yrði tekið mark á þessum ábendingum úr skýrslu um Kópavogshæli, þannig að við lögðum ekki fram neinar tillögur til stjórnvalda um hvernig vægi hægt að vinna úr því,“ segir Bryndís og nefnir að ábendingar verði sendar inn núna til stjórnvalda.

Kvennadeild Kópavogshælis var reist á sjötta áratug síðustu aldar. Þar …
Kvennadeild Kópavogshælis var reist á sjötta áratug síðustu aldar. Þar er nú rekin endurhæfingarstöð fyrir fatlaða. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hún tekur fram að hún sé ánægð með þær bætur sem stjórnvöld hafa greitt út til þeirra sem hafa átt um sárt að binda. Þroskahjálp hafi jafnframt átt gott samstarf við tengilið vistheimila og vistheimilanefnd. Það svíði samt að málið skuli ekki vera klárað og að ekki sé horft til allra barna. Sanngirni hljóti að felast í því.

Bryndís segir Þroskahjálp hafa bent á stöðu fullorðinna sem ekki voru til rannsóknar, samkvæmt lögunum sem unnið var eftir. Ný lög þyrftu einnig að ná til þeirra, í réttlætisskyni „vegna þess að fatlað fólk var vistað í raun og veru gegn vilja sínum. Það hafði ekki val um annað. Aðstandendum þeirra var talin trú um að þetta væri það besta sem væri í boði og við vitum að þau bjuggu við ekkert betri aðbúnað heldur en þessi börn á Kópavogshæli“.

Bryndís bendir á að í skýrslu vistheimilanefndar um Kópavogshæli kom fram að mögulega þurfi ítarleg rannsókn ekki að fara fram á öðrum stofnunum heldur fyrst og fremst að viðurkenna að brotið hafi verið á viðkomandi einstaklingum. „Þetta er viðkvæmasti hópurinn sem ég tel að sé verið að ganga fram hjá þarna.“

mbl.is