Alvarleg líkamsárás á bar

mbl.is/Kristinn Magnússon

Tilkynnt var til lögreglunnar um alvarlega líkamsárás á bar í Mosfellsbæ á tíunda tímanum í gærkvöldi. Þar hafði maður verið kýldur og misst meðvitund og eins var hann með skurð við eyra. Maðurinn var fluttur á bráðamóttöku Landspítalans en árásarmaðurinn var farinn af vettvangi áður en lögregla kom þangað.

Lögreglan stöðvaði bifreið í hverfi 111 um tvö í nótt og reyndi ökumaðurinn að stinga lögreglu af á tveimur jafnfljótum en var fljótlega stöðvaður af lögreglu. Hann er grunaður um ölvun við akstur, vanrækslu á merkjagjöf og að fara ekki að fyrirmælum lögreglu.

Ofurölvi maður var handtekinn í hverfi 101 síðdegis í gær og er hann vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Um miðnætti var maður handtekinn í hverfi 101 grunaður um innbrot í bifreiðar. Hann er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Síðdegis í gær stöðvaði lögreglan för bifreiðar í hverfi 112 og er ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Hann hefur jafnframt aldrei öðlast ökuréttindi en hefur ítrekað verið stöðvaður undir stýri. 

Skömmu fyrir miðnætti var ökumaður stöðvaður í hverfi 109 en hann er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og að aka ítrekað sviptur ökuréttindum.

För átján ára gamallar stúlku, sem hefur aldrei öðlast ökuréttindi, var stöðvuð í nótt en hún ók bifreið í miðborginni og um svipað leyti var annar ökumaður stöðvaður í Hafnarfirði en sá hafði ekið yfir gatnamót gegn rauðu ljósi og er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna.

 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert