Andlát: Valgarður Egilsson læknir og rithöfundur

Valgarður Egilsson.
Valgarður Egilsson.

Valgarður Egilsson, yfirlæknir og prófessor lést á heimili sínu í fyrradag, 78 ára að aldri. Auk starfa að læknavísindum var Valgarður skáld og rithöfundur og vann nokkuð við leiðsögn ferðafólks.

Valgarður var fæddur 20. mars 1940 á Grenivík og ólst upp í Hléskógum í Höfðahverfi. Foreldrar hans voru Egill Áskelsson bóndi þar og Sigurbjörg Guðmundsdóttir húsfreyja.

Hann lauk prófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1968 og doktorsgráðu frá Lundúnaháskóla tíu árum síðar.

Valgarður var læknir hér heima að námi loknu og var síðan við rannsóknarstörf í frumulíffræði og krabbameinsfræðum við rannsóknarstofnanir og læknaskóla í London. Hann hóf störf sem sérfræðingur í frumumeinafræði á Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði á árinu 1979 og var yfirlæknir frá 1997 til starfsloka, 2010. Hann var útnefndur klínískur prófessor við læknadeild HÍ árið 2004.

Valgarður var virkur í félagsmálum á ýmsum áhugasviðum, meðal annars formaður Listahátíðar í Reykjavík og varaforseti Ferðafélags Íslands. Hann sinnti leiðsögn ferðamanna og skrifaði greinar í Árbækur Ferðafélagsins.

Eftir hann liggja skrif á fræðasviði auk þess sem hann gaf út bækur með leikritum, ljóðum, sögum og upplýsingum fyrir ferðafólk. Leikritið Dags hríðar spor var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu leikárið 1980-81 og síðar sýnt í Belfast á Norður-Írlandi. Síðasta bók hans, Ærsl, kom út á síðasta ári.

Eftirlifandi eiginkona Valgarðs er Katrín Fjeldsted, læknir og fyrrverandi borgarfulltrúi og alþingismaður. Þau eignuðust fjögur börn, Jórunni Viðar, Einar Véstein sem lést á barnsaldri, Véstein og Einar Stein. Dóttir Valgarðs frá fyrra sambandi er Arnhildur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert