Bók efst á óskalista landsmanna

Um fimmtungur Íslendinga óskar sér bókar í jólagjöf samkvæmt nýjum …
Um fimmtungur Íslendinga óskar sér bókar í jólagjöf samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bók er efst á óskalista landsmanna fyrir þessi jól ef marka má niðurstöðu Þjóðarpúls Gallup. 22,5% Íslendinga óska sér bókar í jólagjöf eða ríflega fimmtungur þeirra sem taka afstöðu.

Langt er í næsta veraldlega hlut á óskalistanum en tæplega 14% svarenda óska sér einhvers konar fatnaðar í jólagjöf. Þar af tala næstum 5% um fatnað, hátt í 4% langar í skó, rúmlega 3% yfirhöfn, rúmlega 1% peysu og nær 1% náttfatnað. Þeir sem eru með háskólapróf eru líklegri en þeir sem hafa minni menntun að baki til að langa mest í föt í jólagjöf.

Rúmlega 3% langar í eitthvað fyrir heimilið, nær 3% langar í úr og sama hlutfall skartgripi. Ríflega 2% langar í ferðalag, nær 2% heyrnartól og sama hlutfall tölvu, rafbók eða spjaldtölvu. Ríflega 1% langar í síma og sama hlutfall langar í einhver heimilistæki, um 1% langar í pening og sama hlutfall langar í gjafabréf. Loks langar nær 1% í búsáhöld.

Fjögur prósent vilja koss og knús

Margir nefna hluti sem ekki eru metnir til fjár. Þannig segja nær 8% að þau langi að vera með fjölskyldunni, næstum 6% óska sér heimsfriðar,  4% langar mest í stressleysi og rólegheit, hátt í 4% í kærleika eða koss og knús og nær 3% jólagleði. Loks langar tæplega 3% mest í góða heilsu í jólagjöf og hátt í 2% óska sér hamingju.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert