Ásmundur Einar fundaði með ráðherra húsnæðismála í Svíþjóð

Peter Eriksson og Ásmundur Einar Daðason.
Peter Eriksson og Ásmundur Einar Daðason. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Ásmundur Einar Daðason, félags-og jafnréttismálaráðherra, átti fund í dag með Peter Eriksson, ráðherra húsnæðismála og stafrænnar þróunar í Svíþjóð og Anders Gertsen, skrifstofustjóra hjá Norrænu ráðherranefndinni.

Á sameiginlegum fundi húsnæðismálaráðherra Norðurlanda fyrr á þessu ári samþykktu löndin að hefja vinnu við samræmingu byggingarreglna. Ísland mun taka við formennsku í Norrænu ráðherranefndarinnar á næsta ári og kemur það í hlut Íslands að fylgja þessu verki eftir, að því er segir á vef ráðuneytisins.

Þar segir ennfremur, að á fundinum hafi veirð farið yfir stöðu þessa verkefnis og þá vinnu sem sænska Húnsæðismálastofnunin Boværket hafi unnið að. Ásmundur ræddi sérstaklega aukið formlegt samstarf við Svía varðandi einföldun regluverks og sagði frá því að um áramót muni Mannvirkjastofnun og þar með regluverk í byggingariðnaði flytjast til félagsmálaráðuneytis. Í framhaldi af því sé ráðgert að einfalda m.a. byggingarreglugerðina og að í því sambandi verði horft til Svíþjóðar.

Ásmundur Einar segir að mikilvægt sé fyrir íslenskan húsnæðismarkað að einfalda og samræma byggingareglur til að draga úr kostnaði og auka skilvirkni byggingariðnaðarins, að því er segir á vef ráðuneytisins.

„Við munum strax í byrjun nýs árs hefja vinnu við einföldun byggingarreglna m.a. með það að markmiði að ná niður kostnaði við nýbyggingar og samræma þær betur að nágrönnum okkar. Þetta er mikilvæg vinna og ég er ánægður með að tekið hafi verið vel í samstarf og við munum setja okkur í samband við sænsku húsnæðisstofnunina Boverket strax í janúar,“ er eftir eftir ráðherra að loknum fundinum í dag.

Ásmundur lagði einnig áherslu á húsnæðisvanda ungs fólks á Norðurlöndunum og stöðu húsnæðismála í dreifbýli og að þau mál yrðu einnig til umfjöllunar á norrænum fundi ráðherra húsnæðismála á næsta ári. Fram kom að sameiginlegur vilji er til að efla stafræna þróun í stjórnsýslu byggingamála.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert