Stjórnvöldum skylt að vinna að stöðugleika

Bjarni Benediktsson mætir til fundar stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í …
Bjarni Benediktsson mætir til fundar stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í dag. mbl.is/Eggert

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir í samtali við mbl.is að hann furði sig á yfirlýsingum vinnumarkaðsaðila í dag, varðandi það að hann beiti hótunum í umræðum um kjaramál eða sé með stríðsyfirlýsingar. Hann segir að allir ættu að hafa skilning á því að stjórnvöld ætli sér og hafi skyldu til þess að vinna að stöðugleika í efnahagsmálum.

Fundur ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins í dag var gagnlegur, að sögn Bjarna, en þar var meðal annars rætt um stöðuna varðandi átakshóp vegna húsnæðismála og farið yfir launatölfræðimál. Ríkisstjórnin kom ekki með neitt sérstakt útspil inn í kjaraviðræðurnar í dag.

„Við vorum ekki að boða þennan fund til að ræða slíkt, þarna var bara verið að fara yfir stöðuna á nokkrum stórum verkefnum sem við höfum verið í samstarfi við vinnumarkaðinn um,“ segir Bjarni.

Í dag sendi miðstjórn ASÍ frá sér ályktun þar sem ummæli Bjarna í Morgunblaðinu í dag um að áform um lækkun tekjuskatts verði endurskoðuð ef samið verði um óábyrgar launahækkanir á almennum vinnumarkaði voru fordæmd og kölluð hótanir. Formaður VR tók undir þetta og kallaði ummæli Bjarna stríðsyfirlýsingu við kröfur hreyfingarinnar.

„Ég verð bara að lýsa furðu á því að menn telji ástæðu til að gefa út yfirlýsingar þegar ég bendi á hluti sem allir ættu að hafa skilning á, sem að er það að stjórnvöld ætla sér og hafa skyldu til þess að vinna að stöðugleika hér í efnahagsmálum og við munum ekki skilja Seðlabankann einan eftir í að vinna að því hlutverki,“ segir Bjarni.

Hann segir að ríkisstjórnin hafi ávallt verið skýr með það að svigrúm hafi verið tekið til hliðar í ríkisfjármálunum til þess að lækka skatta á millitekju- og lægri millitekjuhópa, í þeim tilgangi að greiða fyrir kjarasamningagerð.

„Hins vegar, ef að kjarasamningalotan í heild sinni fer með einhverjum hætti út um þúfur þannig að það veldur spennu og þenslu í hagkerfinu, þá hafa stjórnvöld skyldu til þess að bregðast við. Seðlabankinn hefur að lögum skyldu til þess og ríkisstjórnin mun sömuleiðis bregðast við. Eitt af því sem við myndum væntanlega þurfa að hugsa í því sambandi er hvernig við myndum tímasetja okkar aðgerðir eins og ég hef greint frá.

Bjarni hefur enn fulla trú á því að „allt þetta …
Bjarni hefur enn fulla trú á því að „allt þetta góða fólk sem er að vinna að þessum málum geti með samningum leitt fram góða niðurstöðu fyrir alla.“ mbl.is/Eggert

Í þessu felst nákvæmlega engin hótun, þetta er eitthvað sem við ættum öll að vera sammála um að sé mikilvægt og það sem vinnumarkaðsaðilar þurfa kannski fyrst og fremst að gera upp við sig er það hvort þeir ætli að taka þátt í því að tryggja hér stöðugt verðlag og stöðugleika eða hvort þeir ætli að segja sig frá því verkefni.“

Bjarni segir að hann hafi komið þessum sjónarmiðum sínum áleiðis í stuttu máli á fundinum í dag og að hann vilji taka fram, í þessu sambandi, að hann hafi enn fulla trú á því að „allt þetta góða fólk sem er að vinna að þessum málum geti með samningum leitt fram góða niðurstöðu fyrir alla. Það hlýtur að vera markmiðið.“

mbl.is