Hrund ráðin framkvæmdastjóri Festu

Hrund hefur lokið MSc gráðu í þróunarfræðum frá London School …
Hrund hefur lokið MSc gráðu í þróunarfræðum frá London School of Economics. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hrund Gunnsteinsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagslega ábyrgð, og mun hún hefja störf í febrúar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Festu.

Hrund hefur lokið MSc gráðu í þróunarfræðum frá London School of Economics, er með diplómagráðu frá Harvard Kennedy School í leiðtogafræðum og opinberri stjórnsýslu, auk þess sem hún hefur stundað leiðtoga- og stjónendanám við Yale-háskóla, Stanford og Oxford Saïd Business School.

Þá hefur Hrund víðtæka ráðgjafar- og stjórnunarreynslu á Íslandi sem og á alþjóðlegum vettvangi, hefur setið í fjölmörgum stjórnum og sérfræðingahópum og er stjórnarformaður Tækniþróunarsjóðs, hefur starfað sem stjórnandi, ráðgjafi og opinber starfsmaður Sameinuðu þjóðanna og situr í sérfræðingaráði Alþjóðaefnahagsráðsins á sviðum tengdu fjórðu iðnbyltingunni og Heimsmarkmiðum SÞ.

„Ég er full tilhlökkunar að vinna með framsæknustu leiðtogum, fyrirtækjum og stofnunum á Íslandi sem eru aðilar að Festu“, segir Hrund. 

„Samtíminn kallar á aukið samstarf þvert á geira og skýran fókus á sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð allra aðila. Spurningin er ekki lengur hvort, heldur hvernig við eflum okkur í þessa veru. Þessar áherslur fela í sér gríðarlega spennandi tækifæri á sviði nýsköpunar, frumkvöðlastarfs og áframhaldandi vegferðar fyrirtækja og stofnana á Íslandi og í alþjóðlegu samhengi. Ég er þakklát fyrir það tækifæri að fá að taka við keflinu af forverum mínum hjá Festu, sem hafa unnið frábært starf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert