Mætti meta menntun betur

Drífa Snædal, fyrrverandi framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, segir nýja rannsókn á högum erlendra kvenna á íslenskum vinnumarkaði sýna að ýmislegt megi gera betur. Svo sem mat á menntun þeirra sem koma erlendis frá til að vinna hér á landi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Starfsgreinasambandsins.

Þegar #metoo-sögur kvenna af erlendum uppruna litu dagsins ljós kom berlega fram að konur í þessum hópi eru meðal þeirra valdaminnstu á vinnumarkaði og auðveldast að misbeita valdi gegn þeim. Það var því bráðnauðsynlegt að skoða betur þennan hóp, athuga hvernig þær koma inn á vinnumarkaðinn og við hvaða skilyrði þær starfa. Ekki síst þurfa stéttarfélögin að vita hvernig best sé að koma upplýsingum til þessa hóps og hvaða aðstoð kemur hópnum best.

„Rannsóknin staðfesti margt, sem við höfum talið okkur vita, en varpar líka ljósi á þætti sem stéttarfélögin verða að taka til sín. Þar má helst nefna mikilvægi trúnaðarmannsins, hvernig staðið er að íslenskunámskeiðum, að leggja beri meiri áherslu á tölvunámskeið og ekki síst þýðingar og útgáfu upplýsinga á fleiri tungumálum en íslensku. Þá er ljóst að við verðum að finna leiðir til að meta menntun þeirra sem koma erlendis frá til að vinna hér á landi; til dæmis að bjóða upp á raunfærnimat í auknum mæli,“ segir Drífa í formála skýrslunnar.

Enginn sem öskrar á þig

Rætt var við konur frá Taílandi, Filippseyjum, Sýrlandi og Póllandi. Allar taílensku konurnar voru sammála um gæði yfirmanna sinna og voru pólsku konurnar því sammála. 

Ein kvennanna sagði: Enginn öskrar eða hrópar á fólk, enginn skammar og allt rennur einhvern veginn svona rólega. Filippseysku og taílensku konurnar voru sammála um að þeirra réttindi á íslenskum vinnumarkaði væru mun betri en í heimalandinu. Önnur filippseyska konan sagðist hafa búið og starfað sem bókari og ritari hjá partasölufyrirtæki á Filippseyjum. Hún starfaði hjá fyrirtækinu í 14 ár og á þeim tíma vann hún alltaf meira en 8 tíma á dag en fékk aldrei yfirvinnu greidda. Auk þess átti hún ekki rétt á veikindaleyfi eða fæðingarorlofi. Hún, sem einstæð móðir á þessum tíma, hafði ekki tækifæri til þess að hafa dóttur sína hjá sér vegna þessara aðstæðna og bjó dóttirin því hjá foreldrum hennar. Fyrir þessa sömu konu voru það viðbrigði að fara úr skrifstofustarfi á Filippseyjum og í ræstingastarf á Íslandi. Hún hafði orð á því að hafa fundið mikið til í líkamanum, sérstaklega í bakinu, fyrst þegar hún byrjaði að vinna á Íslandi en samt sem áður voru aðstæður hennar mun betri og var hún mjög ánægð að hafa flutt frá Filippseyjum.

Misvel hefur gengið fyrir konurnar í rýnihópunum að tengjast íslensku samfélagi. Þær konur, sem áttu íslenska maka, áttu auðveldara með að fóta sig með aðstoð frá mökum sínum og fjölskyldum þeirra.

Fundu fyrir óöryggi þegar kom að því að tala á íslensku

Flóttakonunum var úthlutað stuðningsfjölskyldum sem var hluti af flóttamannaverkefninu en þeim fannst samt sem áður stuðningurinn við að komast inn í íslenskt samfélagi ekki hafa verið nógu mikill frá því að þær komu til Íslands.

„Flestum konunum fannst þær ekki hafa orðið fyrir fordómum í vinnunni en því miður átti það ekki við um þær allar. Ein taílensku kvennanna, sú sem hafði komið fyrir um 30 árum, hafði orðið fyrir miklu einelti í sínu fyrsta starfi. Þá var hún búsett í litlu bæjarfélagi úti á landi og var ein fárra innflytjenda í samfélaginu. Henni var strítt af samstarfsfólki og útilokuð af þeim. Hennar orð voru: Í gamla daga þá mikið svona alveg látið mig ekki í friði, sko, stríða, einelti og alls konar, mér líður mjög illa útá landi í gamla daga. Hún talaði þó mjög vel um þáverandi yfirmann sinn og sagði hann hafa talað ensku við sig sem hafi gert vinnuumhverfið bærilegt.

Sumar kvennanna fundu fyrir óöryggi þegar kom að því að tala íslensku á þeim tíma þegar þær höfðu ekki náð tökum á tungumálinu. Konurnar innan tælensku og pólsku rýnihópanna fannst Íslendingar sýna þeim óþolinmæði þegar þær reyndu að tala íslensku.

Ein konan innan tælenska hópsins sagði frá því hvernig var að starfa á kaffihúsi við afgreiðslu: Að tala íslensku en stundum ég skil ekki svo ég svara á ensku, gamalt fólk, sem var að koma, stundum skamma mig, af hverju ferð þú ekki að læra íslensku, af hverju talar þú ekki íslensku, ef þú talar ekki íslensku þá átt þú ekkert að vera vinna hér, ekkert að búa hér, eitthvað svoleiðis.

Pólsku konurnar sögðust hafa reynt að tala íslensku í vinnunni en reyndin var að það tók þær tíma að setja saman setningu á íslensku en þegar þær síðan tjáðu sig skildi Íslendingurinn, sem talað var við, ekki setninguna og þess vegna forðuðust þær að nota íslensku í vinnunni. Flestum kvennanna fannst óþægilegt þegar samstarfsfólk talaði íslensku í kringum þær og þær gátu ekki skilið um hvað var rætt. Þeim leið eins og verið væri að útiloka þær og sumar kvennanna veltu því fyrir sér hvort verið væri að baktala þær. Ein sýrlensku kvennanna tók þó fram að henni fyndist þetta ekki viljandi gert, þ.e. að hún væri ekki höfð með í samræðum í vinnunni, heldur væri það einfaldlega þannig vegna þess að hún talaði enga ensku og litla íslensku.

Konurnar langaði að vera hluti af hópnum í vinnunni og þeim leið illa vegna þess að svo var ekki eins og yngsta konan í sýrlenska hópnum útskýrði vel: Þá var erfitt, ég meina stelpurnar, sem voru að vinna með mér, þær voru [...] þær voru ekki að tala við mig en þær voru ekki vondar eða neitt, sko, en það var svona óþægilegt að vera allan tímann þegjandi, sko, að tala við engan og svona. Tvær sýrlensku kvennanna sögðu frá því að eiginmenn þeirra höfðu lent í aðstæðum í vinnunni þar sem rasísk ummæli komu við sögu,“ segir í skýrslunni.

Flóttafólk frá Sýrlandi við komuna til Íslands í Leifsstöð.
Flóttafólk frá Sýrlandi við komuna til Íslands í Leifsstöð. mbl.is/Eggert

Allar fundu fyrir andlegri vanlíðan

Allar konurnar í sýrlenska rýnihópnum töluðu um að finna fyrir andlegri vanlíðan sem gerði það að verkum að erfiðara var fyrir þær að ná að fóta sig á íslenskum vinnumarkaði.

Aðspurðar hvort þær hefðu fengið sálfræðiaðstoð eftir komuna til Íslands, var svarið að aðeins hluti kvennanna hefði farið annaðhvort í eitt eða tvö skipti til sálfræðings en jafnframt tóku þær fram að fleiri tímar væru væntanlegir. Ekki kom fram hvort túlkur yrði til staðar.

Konunum fannst mjög erfitt að átta sig á og takast á við það misræmi sem var milli upplýsinganna sem þær fengu annars vegar fyrir komuna til Íslands og hins vegar þeirrar aðstoðar sem þær síðan fengu á Íslandi. Þær fengu almennar upplýsingar um Ísland sem reyndust ekki vera í samræmi við raunveruleikann; átti það sérstaklega við um skattheimtuna. Þær höfðu fengið upplýsingar um að hluti launa þeirra rynni til ríkisins í formi skatts en þeim brá þegar þær áttuðu sig á að næstum helmingur launa þeirra var dreginn af þeim.

„Auk þess fengu konurnar þær upplýsingar að þær myndu fá aðstoð og stuðning í eitt ár við að átta sig á sínu nýja umhverfi. Sem dæmi má nefna að konurnar áttu ekki að fara út á vinnumarkaðinn í eitt ár en hluti þeirra hóf störf aðeins þremur mánuðum eftir komuna til Íslands. Ein konan lýsti þessu á eftirfarandi hátt: Það var sagt við okkur í [...] að þetta mun vera eitt ár sem við munum vera án vinnu og án að borga húsaleigu en það var svona sjokk sem sagt að við þurftum að fara strax að vinna eftir þrjá mánuði og líka borga húsleigu og allt þetta dót,“ segir í skýrslunni.

Konurnar héldu að þær myndu fá tíma til þess að ná áttum og koma sér fyrir. Þær höfðu verið undir miklu álagi áður en þær komu til Íslands og þær héldu að þær gætu aðeins slakað á eftir komuna til Íslands en þeim fannst síðan ekki vera neitt lát á pressunni sem þær voru undir.

 Líður eins og þær hafi farið úr einum slæmum aðstæðum í aðrar

„Það var samt sem áður misræmi í frásögnum kvennanna, þ.e. hvort þær hefðu þurft að standa á eigin fótum eftir þrjá mánuði eða sex mánuði. Ein konan talaði einnig um að hún greiddi ekki fyrir leikskólapláss en senn færi þessu eina ári að ljúka frá komu þeirra til Íslands og því þyrfti hún að fara að greiða fyrir leikskólaplássið.

Konan tók líka fram að hún hefði engin ráð til þess að greiða fyrir leikskólaplássið. Það angraði konurnar að sama þjónustan var ekki í boði fyrir allt flóttafólk á Íslandi heldur valt það á hverju sveitarfélagi fyrir sig hvaða þjónusta var í boði. Til að mynda höfðu þær heyrt af flóttafólki sem var búsett á höfuðborgarsvæðinu og hafði haft aðgang að íslenskunámskeiðum undanfarin þrjú ár sem voru niðurgreidd af félagsþjónustunni.

Allar konurnar sögðust mjög þakklátar Íslendingum fyrir að bjóða þær velkomnar en eins og staðan væri í dag þá liði þeim eins og þær hefðu farið úr einum slæmum aðstæðum í aðrar slæmar aðstæður. Þær voru þannig sammála því að Ísland væri öruggt land en tvær kvennanna sáu fram á að vera heimilislausar um áramótin þar sem eigandi hússins, sem þær bjuggu í, hafði selt húsið. Þriðja konan talaði einnig um að eigandi íbúðarinnar, þar sem hún bjó, vildi fá íbúðina aftur þannig að hún og fjölskylda hennar þyrftu að finna sér annað húsnæði.

Þær höfðu leitað til félagsþjónustunnar um aðstoð en svörin, sem þær hefðu fengið frá þeim, væru þau að þær hefðu lært íslensku og gætu því fundið sér nýtt húsnæði sjálfar.

Staðreyndin var aftur á móti sú að íslenskukunnátta þeirra var takmörkuð og þær höfðu enga tölvukunnáttu sem gerði þeim mjög erfitt fyrir að leita sér að nýju húsnæði. Jafnframt höfðu þær átt mjög erfitt með að standa skil á daglegum útgjöldum fjölskyldunnar á þeim bótum eða launum sem hún hafði til ráðstöfunar á mánuði.

Takmörkuð tölvukunnátta hafði aftrað öllum konunum, til dæmis höfðu þær ekki þekkingu til þess að greiða reikningana sína í heimabankanum. Konurnar sátu 16 tíma tölvunámskeið eftir að þær komu til Íslands en þeim fannst það alls ekki vera nóg. Í heildina þá fannst sýrlensku konunum þær ekki hafa náð að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi út frá þeim stuðningi sem þeim hafði verið veittur síðan þær komu til Íslands. Þær voru hræddar við hvað yrði um þær og fjölskyldur þeirra þegar þessu eina ári lyki,“ segir í skýrslunni sem hægt er að lesa í heild hér.

mbl.is