Ræningi gengur enn laus

Myndbandsupptaka úr verslun Iceland hjálpar ekki við að bera kennsl …
Myndbandsupptaka úr verslun Iceland hjálpar ekki við að bera kennsl á ræningjann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ræninginn sem lét greipar sópa í verslun Iceland í Glæsibæ vopnaður hnífi á mánudagsmorgun og sló afgreiðslumann gengur enn laus. Myndbandsupptökur úr versluninni sýna að maðurinn huldi andlit sitt með hettu og sólgleraugum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir ómögulegt að greina hver hann er.

Ræninginn lét til skarar skríða í verslun Iceland vopnaður hnífi snemma á mánudagsmorgun. Hann ógnaði starfsmanni með hnífnum en beitti honum ekki heldur sló til starfsmannsins sem þurfti á aðhlynningu að halda í kjölfarið.

Næst tók ræninginn pening úr afgreiðslukassanum en talið er að fjárhæðin sem hann komst á brott með hafi verið minni háttar, milli 10 og 20 þúsund krónur.

Í gær var rannsókn enn á frumstigi þar sem tækniörðugleikar komu í veg fyrir að lögregla gæti skoðað myndbandsupptökur úr versluninni. Þær hafa nú verið skoðaðar gaumgæfilega en niðurstaðan er vonbrigði. Þar sem ræninginn huldi andlit sitt með hettu og sólgleraugum er ómögulegt að greina hver var þarna á ferð. Þá var hann dökkklæddur frá toppi til táar og fatnaður hans ekki með nein sérstök einkenni sem hægt er að nota til að grennslast fyrir um.

Lögregla kannar nú svæðið nálægt verslun Iceland og athugar hvort þar megi finna öryggismyndavélar sem náðu betri myndum af ræningjanum.

Það er ekki gott að ræninginn gangi laus, segir lögreglufulltrúi í samtali við mbl.is, því „ef menn komast upp með þetta einu sinni getur vel verið að þeir láti til skarar skríða aftur. Maður veit ekki hvað þessir menn eru að hugsa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert