Ungur háskólanemi vann 40 milljónir

Lottó.
Lottó.

Háskólanemi um tvítugt vann 41,4 milljónir króna í Lottóinu á laugardaginn. Hann er með þeim yngri sem komið hefur í heimsókn til Íslenskrar getspár til að sækja vinning.

Í tilkynningu segir að háskólaneminn hafi verið pollrólegur og mjög ánægður þegar hann mætti til að sækja vinninginn ásamt foreldrum sínum en hann býr í foreldrahúsum.

Hann hafði séð auglýsingu um stóran Lottópott og ákvað að koma við í Fjarðarkaupum þegar hann átti leið um Hafnarfjörð og kaupa miða.

Þegar hann fór inn á lotto.is á laugardagskvöld sá hann einhverjar kunnuglegar tölur. Miðinn var aftur á móti úti í bíl og nennti hann ekki að klæða sig til að sækja hann. Daginn eftir gerði hann það og kom þá í ljós að hann var með vinningsmiða í höndunum.

Sá heppni ætlar að gefa sér góðan tíma til að ákveða næstu skref en ákvað þó að byrja á því að leyfa bílnum sínum að fara í gegnum alþrif svona fyrir jólin, að því er segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert