Skúli í Subway áfrýjar til Hæstaréttar

Sótt hefur verið leyfi til að áfrýja dómnum til Hæstaréttar …
Sótt hefur verið leyfi til að áfrýja dómnum til Hæstaréttar Íslands. mbl.is/Ófeigur

Skúli Gunnar Sigfússon, kenndur við Subway, mun áfrýja dómi Landsréttar sem féll á föstudag fyrir viku þar sem hann var dæmdur til að greiða þrotabúi EK1923 ehf. um 2,3 milljónir króna. Þetta staðfestir lögmaður hans, Heiðar Ásberg Atlason, í samtali við mbl.is.

„Ég hef óskað eftir leyfi til að áfrýja honum til Hæstaréttar,“ sagði Heiðar Ásberg.

Sjaldgæf niðurstaða

Lands­rétt­ur sneri við dómi Héraðsdóms Suður­lands og dæmdi Skúla Gunn­ar skaðabótaskyldan vegna greiðslu sem EK1923 innti af hendi til kröfu­haf­ans Evr­on Foods Ltd.

Komst Lands­rétt­ur að þeirri niður­stöðu þrátt fyr­ir að Skúli hefði hvorki verið fram­kvæmd­ar­stjóri fé­lags­ins eða í stjórn þess þegar greiðslan var innt af hendi. Lands­rétt­ur taldi aft­ur á móti sannað að Skúli hefði með bein­um eða óbein­um hætti gefið fyr­ir­mæli um að skuld­in yrði greidd og hefði því valdið EK1923 tjóni með sak­næm­um og ólög­mæt­um hætti.

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður og skiptastjóri þrotabús EK1923 ehf. sagði niðurstöðu Landsréttar niðurstöðuna mjög sjaldgæfa þótt dómafordæmi væru til staðar.

Stærsta málið tekið fyrir næsta sumar

Dóm­ur­inn er sá þriðji sem fell­ur á skömm­um tíma þar sem Sveinn Andri sem skipta­stjóri þrota­bús EK1923 hef­ur bet­ur í máli gegn Skúla eða fé­lög­um í hans eigu. Stjarn­an ehf., rekstr­araðili Su­bway, var í síðustu viku dæmt til að greiða þrota­bú­inu 15 millj­ón­ir króna.

Þá var fast­eigna­fé­lag Skúla, Sjöstjarn­an ehf., dæmt til að greiða þrota­bú­inu tæp­ar 223 millj­ón­ir í héraðsdómi í októ­ber og staðfesti héraðsdóm­ur á sama tíma rift­un greiðslu EK1923 til Sjö­stjörn­unn­ar að fjár­hæð 21,3 millj­ón­ir. Upp­reiknaðar með vöxt­um og drátt­ar­vöxt­um nema kröf­urn­ar um 407 millj­ón­um króna.

Þeim mál­um var áfrýjað og verða tek­in fyr­ir sam­an fyr­ir Lands­rétti um mitt næsta ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert