Yfir helmingur heimila með gervijólatré

54% landsmanna ætla að vera með gervijólatré í ár.
54% landsmanna ætla að vera með gervijólatré í ár. mbl.is/Styrmir Kári

Meirihluti heimila mun skarta gervitré yfir jólin líkt og fyrri ár. Þetta eru niðurstöður könnunar MMR sem segir litlar breytingar hafa orðið á jólatrjáahefðum landsmanna.

Samkvæmt könnuninni sem gerð var dagana 5. - 11. desember segjast 54,5% landsmanna ætla að setja upp gervijólatré á heimili sínu þessi jól, 31,9% segjast ætla að setja upp lifandi jólatré en 13,6% segja ekkert jólatré verða á sínu heimili.

Þegar litið er til bakgrunns svarenda má sjá að lítill munur reyndist á uppsetningu jólatrjáa eftir kyni, en svarendur á aldrinum 30-49 ára voru þó líklegastir allra aldurshópa til að segjast munu hafa lifandi tré á heimilum sínum, eða 33%. Hópurinn 18-29 ára reyndust hins vegar líklegastur til að segjast ætla að setja upp gervitré (56%), en svarendur í elsta aldurshópi (68 ára og eldri) voru líklegust til að ætla ekki að vera með jóla tré í ár.

Eins reyndust svarendur á höfuðborgarsvæðinu (33%) líklegri en svarendur á landsbyggðinni (30%) til að ætla að hafa lifandi jólatré á heimilum sínum.

Væri hins vegar litið til stjórnmálaskoðana var stuðningsfólk Samfylkingar (41%), Viðreisnar (38%) og Sjálfstæðisflokks (36%) líklegast til að ætla að hafa lifandi jólatré í ár,  stuðningsfólk Flokks fólksins (72%) og Miðflokks (64%) var líklegast til að ætla að notast við gervitré. Þá reyndist stuðningsfólk Pírata (22%) líklegast til að sleppa jólatrénu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert