„Hvorki Dagur né Hrólfur eru vondir“

Ég verð bara að segja að mér ofbýður algjörlega þessi hamagangur og vægðarlausu svipugöng sem Dagur verður nú fyrir útaf þessu braggamáli.“ Þannig hefst færsla Jóns Gnarr, fyrrverandi borgarstjóra, á Facebook.

Jón segir að það sé vel þekkt að opinberar framkvæmdir fari yfirleitt fram úr áætlun, eða í 90% tilfella. „Það er ekki gott. En það er yfirleitt ekki við spillingu eða vanhæfni fólks að sakast heldur er þetta kerfislægur vandi, einsog í svo mörgu hér á landi, þeas við erum með svo stjarnfræðilega lélegt regluverk að það bara býður uppá svona klúður,“ skrifar Jón.

Hver pælir í því hvað Vigdísi Hauksdóttur finnst um þetta?

Hann spyr sig daglega hver tilgangurinn sé með svona upphlaupi eða aðför. Daglega birtist fyrirsagnir, í öllum fjölmiðlum, að einhver segir að honum finnist að Dagur eigi að segja af sér út af þessu. Allt sé þetta fólk sem löngu ljóst er að eigi sér enga ósk heitari en að hann segi einmitt af sér.

Meira að segja Vigdís Hauksdóttir fékk fyrirsögn á RÚV um daginn. Hver er eiginlega í alvöru að pæla í því hvað henni finnst? Hún er td. ekki enn búin að svara því hvort formaðurinn hennar og þrír aðrir meðlimir flokks hennar eigi að segja af sér þingmennsku útaf yfirgengilegu fylleríis-rugli,“ skrifar Jón.

Dagur B. Eggertsson ræddi við fjölmiðla á fimmtudag eftir að …
Dagur B. Eggertsson ræddi við fjölmiðla á fimmtudag eftir að skýrslan um braggamálið var gerð opinber. mbl.is/Árni Sæberg

Hann segist ekki hafa lesið skýrslu Innri endurskoðunar um framúrkeyrsluna vegna framkvæmda við braggann en þekki kerfið af eigin raun og flestar persónur og leikendur. „Hvorki Dagur né Hrólfur eru vondir, spilltir eða heimskir. Langt í frá. Þetta er kerfislægur vandi, það vita það allir sem vilja. Þeir sem ekki skilja það hafa annað hvort ekki kynnt sér málið eða hreinlega þykjast ekki vita það til að ná einhverju fram sem þeir vilja.

Fólk í veikindum á skilið stuðning og umhyggju

Jóni þykir líka ömurlegt að horfa upp á þegar fólk og hópar nýta sér persónulegar aðstæður fólks til að koma á það höggi. Hann segir að ein helsta ástæða þess að Dagur hafi átt í erfiðleikum með að svara fyrir þetta sé sú að hann hafi verið að glíma við erfiðan sjúkdóm og sé tiltölulega nýkominn úr veikindaleyfi.

Mér fannst því soldið sérstakt, í korterslöngu Kastljósviðtali, sem er fyrsta viðtalið við borgarstjóra í langan tíma er ekki vikið einu orði að veikindum hans. Á öllum sviðum samfélagsins er það þetta sem skiptir mestu máli og ef fólk er að ganga í gegnum veikindi þá á það rétt á stuðningi og umhyggju annarra. En af hverju ekki ef fólk er að vinna í stjórnmálum? Það er ekkert sem réttlætir það að láta eins og veikt fólk sé ekki veikt,“ skrifar Jón og bætir við að þetta sé staða samfélagsins og hún sé ekki góð.

Ég held að þessi landlægi ruddaskapur og villimennska sé ein helsta ástæða þess hvað fólk er tregt til að þora að skipta sér af stjórnmálum og eina fólkið sem virðist þrífast þarna eru einhverjir fárveikir alkóhólistar,“ skrifar Jón að lokum og óskar öllum gleðilegra jóla og vonast eftir heilbrigðari stjórnmálum og aðeins uppbyggilegri umræðu á nýju ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert