Jólaþorpið iðar af lífi á Þorláksmessu

Boðið er upp á ferðir í fallega skreyttum hestvagni í …
Boðið er upp á ferðir í fallega skreyttum hestvagni í Hafnarfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölmenni hefur lagt leið sína í jólaþorpið á Thorsplani í Hafnarfirði þar sem hátíðardagskrá hefur staðið yfir í allan dag. 

„Það hafa margir komið hingað og viðrað skötulyktina af sér. Það er hvergi betra að gera það en hér,“ segir Andri Ómarsson, verkefnastjóri hjá Hafnarfjarðarbæ. „Það hefur verið voða notalegt hér í allan dag. Skjóða stýrði dagskránni sem byrjaði á mjög hátíðlegum nótum. Alda Ingibergs söng nokkur mjög hátíðleg jólalög í byrjun dags og síðan tók við Lúðrasveit Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Síðan enduðum við með stóru jólaballi,“ segir hann, en þar að auki voru veitt verðlaun fyrir best skreyttu húsin í Hafnarfirði.

Jólahúsin í Jólaþorpinu eru vel þekkt og hafa margir náð …
Jólahúsin í Jólaþorpinu eru vel þekkt og hafa margir náð sér í bita eða góða gjöf þar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í jólaþorpinu eru tuttugu fagurlega skreytt jólahús þar sem fjöldi fólks selur ýmsa gjafavöru, handverk og hönnun, gómsætar veitingar og ljúfmeti sem taka má heim og bera fram yfir hátíðina. Þá er boðið er upp á ferðir í skreyttum hestvagni. 

Ungir sem aldnir líta við í Jólaþorpinu, en Skjóða hélt …
Ungir sem aldnir líta við í Jólaþorpinu, en Skjóða hélt uppi dagskránni framan af degi og haldið var stórt jólaball. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Síðan verður jólaganga nú á eftir. Við göngum frá Hörðuvöllum klukkan sjö og göngum sem leið liggur í jólaþorpið þar sem verður samsöngur og kyndlar sem björgunarsveitirnar selja. Síðan tekur við skemmtileg dagskrá þar sem Björgvin Franz og Esther Jökuls flytja okkur Hnallþórujól og syngja ekta amerísk jólalög, alvöru 50's jólalög. Síðan slær Sigríður Thorlacius botninn í þetta og syngur jólalög með sínu nefi,“ segir Andri.

Ljúfir harmonikkutónar ómuðu um Thorsplanið í dag.
Ljúfir harmonikkutónar ómuðu um Thorsplanið í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert