Vél í eldhúsinu heldur henni ungri

Svanhildur Jakobsdóttir.
Svanhildur Jakobsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Fáir Íslendingar hafa líklega gleymt jafn rækilega að eldast og Svanhildur Jakobsdóttir söngkona. Hún hlær þegar þetta ber á góma í viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðins. „Tja, ég finn alla vega ekki fyrir neinu. Hvað skyldi maður svo sem eiga að finna? Ég er mjög heppin að hafa góða heilsu, ætli það sé ekki að einhverju leyti genetískt en ég þakka það þó aðallega nýkreistum ávaxtasafa á hverjum morgni.“

– Og hvað er eiginlega í honum?

„Allt sem ég á til; appelsínur, epli, gulrætur, hvaðeina.“

Já, blandarar eru greinilega til fleiri hluta gagnlegir en að færa mann ferska safa. Þeir geta líka haldið okkur ungum, alltént sumum okkar.  

– Hreyfirðu þig mikið?

„Nei, ég geng með hundinn. Hann er hins vegar mjög latur og nennir ekki að fara langt, frekar en ég. Við erum mjög góð saman.“

Hún hlær.

Annars er Svanhildur mikill dýravinur og gæti ekki hugsað sér lífið án málleysingja á heimilinu. „Við höfum alltaf verið með dýr. Þau eru auðvitað „börn“ allan tímann, verða aldrei sjálfbjarga. Það er vesen þannig lagað – en gott vesen. Svo er það alltaf agalegt þegar þau fara, enda eru þessi grey hluti af fjölskyldunni. Hundurinn minn er orðinn 9 ára en þetta kyn getur orðið mjög gamalt. Anna Mjöll dóttir mín er líka með lítinn hund sem orðinn er 17 ára.“

Ætlaði að kenna leikfimi

Henni þykir alltaf jafn gaman að koma fram og syngja. „Ég vona að ég hætti aldrei að vera viðloðandi tónlist enda þótt ég sakni þess ekki að syngja á dansleikjum sex kvöld í viku. Það var gaman að fá að taka þátt í því á sínum tíma en í dag nægir mér alveg að koma fram endrum og sinnum.“

Þau Ólafur Gaukur voru gift í fjöldamörg ár og störfuðu alla tíð saman. Spurð hvort hann hafi strax séð í henni söngkonu svarar Svanhildur: „Ég held hann hafi vonað það. Það gat komið sér vel að vinna saman. Gaukur kenndi mér að syngja og það var alla tíð einkar gott að vinna með honum.“

– Var hann kröfuharður kennari?

„Nei, alls ekki. Hann gat þó stundum verið svolítið óþolinmóður.“

– Sástu fyrir þér sem stelpa að þú ættir eftir að starfa alla ævina við söng?

„Almáttugur, nei. Mamma kenndi leikfimi og ég ætlaði alltaf að feta í hennar fótspor. Ég var mikið í íþróttum á yngri árum og sýndi meðal annars fimleika. En lífið er alveg óútreiknanlegt. Hafandi sagt það er ég ákaflega glöð að ég skuli hafa lagt sönginn fyrir mig; þetta hefur verið og er voðalega gaman.“

Heimilislegt að vera þekkt

Söngvarar fá sinn skerf af athygli en Svanhildur segir það aldrei hafa truflað sig. Þvert á móti. „Eftir að sjónvarpið kom til sögunnar fór fólk að þekkja mann en við vorum töluvert þar í árdaga. Mér hefur alltaf fundist gaman þegar fólk þekkir mig og heimilislegt þegar ókunnugir gefa sig á tal við mann og víkja ef til vill að manni fallegum orðum. Annars lít ég ekki svo á að fólk sé frægt á Íslandi, en það getur verið þekkt.“

Hjónin gerðu allnokkra þætti fyrir Sjónvarpið á þessum tíma en aðeins einn þeirra hefur varðveist. Svanhildi þykir það miður enda var mikið í þættina lagt og til þeirra vandað. En fé var af skornum skammti og menn sífellt að spara spólurnar. Því fór sem fór. „Það glötust allskonar heimildir af þessum sökum. Ekki bara þessir þættir, heldur margvíslegt annað. Sem er synd.“

Nánar er rætt við Svanhildi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert