„Yngra fólkið er komið á bragðið“

Fjöldinn allur af fólki gæddi sér á skötu á Kænunni …
Fjöldinn allur af fólki gæddi sér á skötu á Kænunni í Hafnarfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Margt var um manninn á Kænunni í Hafnarfirði framan af degi, en þar var boðið upp á skötu eins og siður er á Þorláksmessu líkt og víða annars staðar. Oddsteinn Gíslason, eigandi Kænunnar og matreiðslumeistari, segir að fjölgað hafi frá síðasta ári og mikið gleðiefni sé að ungu fólki fjölgi í hópi þeirra sem njóti skötunnar á Þorláksmessu. 

„Þetta gekk frábærlega og það er aukning frá síðasta ári. Við renndum dálítið blint í sjóinn því Þorláksmessu ber nú upp á sunnudag. Við vissum ekki alveg hvernig þetta yrði, en dagurinn hefur verið frábær og við höfum afgreitt u.þ.b. fimm hundruð manns,“ segir Oddsteinn. Aðspurður segir hann að sífellt fjölgi í hópi skötuunnenda.

Kænan bauð einnig upp á plokkfisk, saltfisk og síld.
Kænan bauð einnig upp á plokkfisk, saltfisk og síld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta bara eykst. Hingað komu margir sem voru að smakka í fyrsta skiptið og koma hingað með vinum og fjölskyldu,“ segir Oddsteinn. Skatan í ár hafi verið sérstaklega góð. „Hún er yfirleitt mjög fín hjá okkur, vel sterk. Við höfum yfirleitt haft eina tegund en margir eru með tindabikkju sem getur verið mun sterkari og síðan aðra vægari. Við bjóðum einnig upp á plokkfisk, saltfisk, síld og fleira til hliðar. Við reynum að hafa skötuna rétt rúmlega miðlungssterka og þá eru yfirleitt allir glaðir,“ segir hann.

Um fimm hundruð manns litu við milli klukkan ellefu og …
Um fimm hundruð manns litu við milli klukkan ellefu og hálfþrjú. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Líkt og áður sagði hafa um fimm hundruð manns komið á Kænuna það sem af er degi, en á staðnum er pláss fyrir um hundrað manns. „Það þarf að halda sjó í þessu. Það er þokkalegt að afgreiða þetta marga á tveimur til þremur tímum. Það er opið til klukkan fimm í dag en mesta höggið er frá klukkan ellefu til um hálf þrjú,“ segir hann. 

Aðspurður segir Oddsteinn að gestir Kænunnar þetta árið séu á öllum aldri. „Við erum að sjá talsvert af yngra fólki líka. Það er mjög ánægjulegt og við sjáum að yngra fólk er mikið að koma eitt og sér núna. Áður var þetta oft þannig að það kom með fjölskyldum sínum til að smakka, en nú er það komið á bragðið!“ segir hann.

Vegleg hlaðborð er að finna víðs vegar um höfuðborgina í …
Vegleg hlaðborð er að finna víðs vegar um höfuðborgina í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert