Sænsk jól Akureyrings í Þýskalandi

Arnór Þór Gunnarsson með bók Arons bróður síns fyrir framan …
Arnór Þór Gunnarsson með bók Arons bróður síns fyrir framan jólatréð í Þýskalandi. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta eru níundu jólin þar sem ég er ekki heima á Íslandi,“ segir handboltamaðurinn Arnór Þór Gunnarsson í samtali við mbl.is. Hann leikur með þýska 1. deildarliðinu Berg­ischer en handboltamenn fá ekkert frí yfir hátíðirnar, heldur er leikið á Þorláksmessu og öðrum degi jóla.

Arnór heldur svo heim á leið til Íslands 27. desember en þá hefst undirbúningur fyrir heimsmeistaramótið í handbolta sem hefst 10. janúar í Þýskalandi og Danmörku. Arnór viðurkennir að álagið um jólin sé misskemmtilegt.

Arnór Þór með boltann á landsliðsæfingu. Landsliðið kemur saman til …
Arnór Þór með boltann á landsliðsæfingu. Landsliðið kemur saman til æfinga fyrir HM milli jóla og nýárs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í fyrra spiluðum við útileik 23. og einnig útileik 26. desember. Báðir útileikirnir voru langt í burtu þannig að við þurfum að ferðast daginn fyrir leik,“ segir Arnór. Auk þess hafi liðið komið aftur heim seint að kvöldi og því hafi hann verið kominn á koddann heima hjá sér seint á aðfaranótt aðfangadags og síðan þurft að leggja af stað aftur í ferðalag á jóladag.

„Í ár spilum við útileik á Þorláksmessu og síðan eigum við heimaleik 26. desember. Það er ágætt, betra en í fyrra alla vega,“ segir Arnór.

Liggur ekki afvelta eftir jólamatinn

Spurður hvort það sé ekki erfitt að standast allar matarfreistingar jólanna segir Arnór að það sé hægt að leyfa sér smá. „Ég fæ mér hamborgarhrygg og konfekt á aðfangadag. Ég ligg hins vegar ekki afvelta eftir þrjá diska,“ segir Arnór og hlær.

Hann segist vera mjög mikið jólabarn, eða jólamaður, og hafi alltaf verið. Hann sakni því auðvitað stórfjölskyldunnar og segir að æskujólin á Akureyri hafi verið frábær. „Það var mikið borðað og hellingur af pökkum. Núna eiga ég og konan mín barn, höldum jólin saman og það er æðislegt líka.“

Jólahald verður frábrugðið því sem áður hefur verið hjá Arnóri og fjölskyldu en þeim hefur verið boðið í sænskar kjötbollur og fleira gotterí á aðfangadagskvöld. „Fyrir tímabilið í fyrra komu tveir Svíar í liðið og við buðum þeim í íslenskan jólamat. Þeir bjóða okkur í sænsk jól í ár, sem er mjög spennandi.“

Svipuð staða bræðranna

Bróðir Arnórs, knattspyrnukappinn Aron Einar Gunnarsson sem leikur með Cardiff í ensku úrvalsdeildinni, er í sömu stöðu. Líkt og í þýska handboltanum er mikið álag yfir hátíðirnar í Englandi en ólíkt Þýskalandi er einnig leikið í Englandi á milli jóla og nýárs og á fyrsta degi nýs árs.

Arnór Þór Gunnarsson og Aron Einar Gunnarsson eftir leik í …
Arnór Þór Gunnarsson og Aron Einar Gunnarsson eftir leik í Þýskalandi haustið 2016. Deutzmann / deutzmann.net,Ljósmynd/Bergischer HC

Arnór er tveimur árum eldri en Aron og miðað við lestur á bók um líf Arons; Aron, sag­an mín, eru bræðurnir miklir mömmustrákar. Arnór neitar því ekki en hlær og segir að Aron sé nú meiri mömmustrákur en hann. Spurður hvort móður þeirra bræðra þyki ekki erfitt að þeir séu báðir erlendis á jólunum segir Arnór að það sé allur gangur á því hvernig fyrirkomulagið hafi verið síðan bræðurnir fluttu.

„Fyrir nokkrum árum, áður en ég fór út, þá héldum við jólin úti hjá honum. Stundum hafa einhverjir komið til mín og aðrir til hans. Fólk reynir að heimsækja okkur í desember en um miðjan mánuðinn komu mamma, pabbi og stóri bróðir minn í heimsókn. Það er gott að fá heimsóknir þegar jólin nálgast. Fínt til að koma með mat og pakka.“

Gott að koma heim 

Álagið í handboltanum er gríðarlegt en stórmót eru á hverju ári í janúar. Arnór viðurkennir að það geti verið erfitt að koma úr leikjatörn og fara beint að huga að stóru landsliðsverkefni en segir kostina fleiri en gallana.

„Það er gríðarlega gott að komast heim og það er mjög gaman að hitta strákana í landsliðinu. Andrúmsloftið hefur verið gott síðan ég byrjaði í landsliðinu og menn eru pínu fegnir að komast heim og æfa heima,“ segir Arnór og bætir við að menn séu ekki fastir á hótelum og geti slakað á milli æfinga með fjölskyldu og vinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert