Hlaupa 14 kílómetra að 13 kirkjum

„Við fórum að æfa þennan dag og hlaupa til að safna kirkjum, reyna að hlaupa framhjá fleiri og fleiri kirkjum og þetta fór út í slíkar öfgar að menn voru farnir að hlaupa alltof langt,“ segir Ólafur Örn Svansson, formaður Trimmklúbbs Seltjarnarness sem stóð fyrir árlegu Kirkjuhlaupi TKS í áttunda sinn í dag.

Um 400 hlauparar tóku þátt og var Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, meðal þátttakenda.

„Fyrir átta árum síðan fékk einhver þá hugmynd að bjóða öðrum með og úr varð þetta formlega kirkjuhlaup sem fleiri og fleiri bíða eftir á hverju ári.“

Prestar heilsuðu upp á hlaupara.
Prestar heilsuðu upp á hlaupara. mbl.is/Árni Sæberg

Hlaupið hefst við Seltjarnarneskirkju og þaðan er hlaupin fjórtán kílómetra löng leið framhjá þrettán kirkjum. „Þær voru fjórtán áður en Hjálpræðisherinn flutti úr Aðalstrætinu. Við hlaupum reyndar framhjá hofi ásatrúarmanna og stöldrum þar við, en það hefur ekki verið talið með í ljósi nafngiftar hlaupsins,“ útskýrir Ólafur.

„Það er frjáls aðferð og sumir hafa þá hefð að þeir verði að snerta hurðina á hverri einustu kirkju á meðan aðrir láta sér duga að hlaupa þessa vegalengd og sjá kirkjurnar. Við stoppum og bíðum eftir síðasta manni við hverja kirkju, nema kannski við síðustu tvær, háskólakapelluna og Neskirkju, þá fá menn lausan tauminn.“

Engin tímataka er í hlaupinu og hægt er að stytta sér leið þyki fólki vegalengdin of löng. „Þó að vegalengdin sé rúmlega 14 kílómetrar þá er hvíld í því að stoppa, það er engin tímataka og þetta er allt annað en að hlaupa þessa vegalengd í keppnishlaupi,“ segir Ólafur að lokum.

Ljósmyndari mbl.is fór á vettvang og tók ljósmyndir af kirkjuhlaupurum við Dómkirkjuna.

Fjöldi fólks reimaði á sig hlaupaskóna í morgun.
Fjöldi fólks reimaði á sig hlaupaskóna í morgun. mbl.is/Árni Sæberg
Hlauparar hópast saman við hverja kirkju.
Hlauparar hópast saman við hverja kirkju. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is