47,5 milljónum safnað fyrir Jemen

Tekist hefur að safna 47,5 milljónum króna til þess að …
Tekist hefur að safna 47,5 milljónum króna til þess að hjálpa fólki í brýnni neyð í Jemen. AFP

Neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi vegna neyðarástands í Jemen hefur skilað um 47,5 milljónum króna, að því er segir í fréttatilkynningu. „Við erum svo ótrúlega ánægð með framlag almennings sem sýnir að fólk á Íslandi lætur sig neyð fólks annars staðar svo sannarlega varða,” er haft eftir Atla Viðari Thorstensen, sviðsstjóra hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins.

Söfnunin hófst í nóvember og lauk í dag.

Hann segir framlög í söfnunina vera frá innlendum félögum, einstaklingum sem hafa gefið í neyðarsöfnunina í stað þess að gefa jólagjafir, börn hafa safnað peningum með hlutaveltu og einstaklingar hafa gefið afrakstur vinnu sinnar til neyðarsöfnunarinnar.

Jólaandi

Um 15,5 milljónir króna söfnuðust með framlagi almennings og deildum Rauða krossins um landið. Framlag utanríkisráðuneytisins var 21 millljón og veittar voru tíu milljónir frá Mannvinum Rauða krossins á Íslandi.

„Ef þetta er ekki sannur jólaandi og samhugur í verki þá veit ég ekki hvað. Þá viljum við einnig þakka utanríkisráðuneytinu sérstaklega fyrir þeirra stuðning en framlag ráðuneytisins er í einu orði sagt frábært,“ segir Atli Viðar.

Þá segir í tilkynningunni að söfnunarfénu verði komið áleiðis til Alþjóðaráðs Rauða krossins sem starfar á svæðinu í samstarfi við jemenska Rauða hálfmánann. Tekið er fram að þrír sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi hafi starfað við hjálparstarf Alþjóðaráðs Rauða krossins í Jemen.

Barn deyr á tíu mínútna fresti

Mannúðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNOCHA) hefur talið að af 29 milljónum sem búa í Jemen þurfi 22 milljónir, eða 75%, á aðstoð að halda. Þar af eru rúmlega 11 milljónir í brýnni þörf á aðstoð til þess eins að halda lífi og er talið að sá hópur verði um 13 milljónir nú við áramót.

Stofnunin hefur ítrekað það álit sitt að hætta sé á því að í Jemen verði mesta hungursneyð sem sést hefur í um hundrað ár. Í landinu lætur barn yngra en fimm ára lífið á tíu mínútna fresti sökum fæðuskorts og/eða skorts á meðferðarúrræðum við læknanlegum sjúkdómum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert