Í gegnum vegriðið á miðri brú

Slasaðir fluttir á slysadeild Landspítalans í Fossvogi nú um kl. …
Slasaðir fluttir á slysadeild Landspítalans í Fossvogi nú um kl. 13. mbl.is/Árni Sæberg

„Hún var náttúrulega bara alveg hræðileg. Bíllinn var mjög illa farinn eftir að hafa flogið fram af brúnni og steypst þarna niður,“ segir Adolf Ingi Erlingsson leiðsögumaður, spurður um hvernig aðkoman var við brúna við Núpsvötn þar sem þrír létust og fjórir slösuðust alvarlega.

„Þegar ég kom að voru fjórir komnir út úr bílnum, eitt þeirra látið og þrjú enn þá föst í bílnum, tvö þeirra sennilega látin. Þetta var bara ömurleg aðkoma,“ segir hann.

Fram hefur komið að barn sé á meðal þeirra sem létust.

Hann segist ekki geta lagt mat á hvað gerðist en að þetta komi á óvart þar sem hann hafi ekki fundið fyrir neinni hálku á brúnni, en Adolf Ingi var með 19 ferðamenn í þriggja daga ferð um Suðurlandið um borð í sinni bifreið.

„Ég get varla ímyndað mér hvað hefur gerst sem að verður til þess að hann missir stjórn á honum það harkalega að hann fari í gegnum vegriðið bara á miðri brúnni,“ segir hann og bætir við að hann telji fallið af brúnni vera um fimm til sex metra.

Spurður hvort atvikið hafi haft mikil áhrif á ferðamennina sem voru með honum í för, segir hann svo ekki vera.

„Þau sem betur fer sáu ekkert af þessu, maður sá ekki mikið ofan af brúnni og ég stoppaði bara bílinn þegar ég var kominn yfir brúna og fór til þess að athuga hvort ég gæti eitthvað hjálpað. Þau voru bara eftir í bílnum, en þau vita hvað gerðist og eru pínu skelkuð sum þeirra.“

Uppfært kl. 14:14

Fram hefur komið í samtali við lögreglu að einstaklingarnir hafi verið með breskt ríkisfang. Breska sendiráðið segir í samtali mbl.is að ríkisfang fólksins hafi ekki verið staðfest að svo stöddu.

Slys við Núpsvötn.
Slys við Núpsvötn. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert