Bílstóllinn laus og barnið ekki í honum

Núpsvatnabrú.
Núpsvatnabrú. mbl.is/Sigurður Gunnarsson

Barnabílstóll var laus í bílnum í umferðarslysinu við Núpsvötn í gær þegar að var komið. Ungbarnið sem lést var ekki í honum þegar lögreglan mætti á vettvang.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.

Unnið hefur verið að rannsókn slyssins í dag og farið var á vettvang með fulltrúa rannsóknarnefndar samgönguslysa. Hafist var handa við bíltæknirannsókn á bílnum sem fólkið var á og miðast hún við að leiða í ljós hvort eitthvað það sem finnst við skoðun á honum hafi átt þátt í eða valdið slysinu. Sérstaklega verður kannað hvort og hvaða öryggisbúnaður og/eða öryggisbelti var í notkun í bílnum.

Lesið var úr aksturstölvu bílsins í morgun en það er hluti af því að afla upplýsinga sem nýtast til þess að reikna út hraða ökutækisins þegar slysið varð. Auk bílsins var hluti brúarhandriðsins fluttur á Selfoss til frekari rannsóknar.  

Fyrir liggja niðurstöður úr rannsókn blóðsýna úr ökumanni en slíkt er alltaf gert í jafn alvarlegum slysum og þessu, að því er segir í tilkynningunni. Niðurstaðan staðfestir að hann var ekki ölvaður við aksturinn.

Réttarkrufning á líkum hinna látnu fer fram 2. janúar.

Aflað hefur verið upplýsinga hjá þeim vitnum sem hafa gefið sig fram og fyrir liggur að taka skýrslu af ökumanni og farþega þegar ástand þeirra leyfir slíkt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert